Fréttir
Hefur styrkt KAON um rúmar 3,2 milljónir
09.12.2025 kl. 09:00
Takk! Hörður Óskarsson og stjórnarmenn í Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Frá vinstri: Pétur Þór Jónasson, formaður KAON, Kristján Aðalsteinsson, Hörður Óskarsson, Arnar Arnarson, Hafdís Sif Hafþórsdóttir, Maron Björnsson og Sólveig Hulda Valgeirsdóttir.
Hörður Óskarsson hefur styrkt Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis reglulega undanfarin ár, til minningar um bróður sinn, Sigurð Viðar Óskarsson, sem lést úr krabbameini árið 2010. Hörður smíðar fallegt skart úr gamalli mynt sem hann selur undir merkjum Mynthringar og allskonar.
Í mars selur Hörður mottur og í október slaufur, í ár skilaði salan 826.000 krónum og frá 2018 hefur Hörður styrkt Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis um rúmar 3,2 milljónir – 3.247.000 kr.
Vert er að geta þess að vörur Harðar eru til sölu hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis og í vefverslun Krabbameinsfélagsins. Einnig er hægt að panta þær í gegnum Facebook síðu Harðar.
