Fara í efni
Fréttir

Heba Ásgrímsdóttir ljósmóðir látin

Heba Ásgrímsdóttir ljósmóðir látin

Heba Ásgrímsdóttir ljósmóðir er látin, 83 ára að aldri. Hún fæddist á Akureyri 10. febrúar 1938 og lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri í gær, 8. nóvember, eftir skammvinn veikindi.

Eiginmaður Hebu er Hallgrímur Skaptason, skipasmiður og framkvæmdastjóri. Börn þeirra eru Skapti, kvæntur Sigrúnu Sævarsdóttur, Guðfinna Þóra, gift Sigurði Kristinssyni og Ásgrímur Örn, kvæntur Lenu Rut Birgisdóttur. Dóttir Hallgríms er Sólveig, sambýlismaður hennar er Birgir Þór Jónsson.

Foreldrar Hebu voru Ásgrímur Garibaldason og Þórhildur Jónsdóttir. Systkini hennar eru Margrét Arndís, fædd 1933 og Jón Ævar, fæddur 1942. Hann er látinn.

Heba var ljósmóðir við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til áratuga. Þá starfaði hún árum saman á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og á Heilsugæslustöðinni á Akureyri, eftir að krabbameinsleitin færðist þangað.