Fara í efni
Fréttir

Háværir Norðmenn í Eyjafirði í dag

F-35 þotur ítalska hersins á leið til lendingar á Akureyri á Flugdegi Flugsafns Íslands í fyrrasumar…
F-35 þotur ítalska hersins á leið til lendingar á Akureyri á Flugdegi Flugsafns Íslands í fyrrasumar. Ljósmynd: Hörður Geirsson.

Komið er að loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins (NATO) við Ísland enn á ný og hefjast aðflugsæfingar að varaflugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum í fyrramálið. Norski flugherinn er á ferðinni að þessu sinni, með fjórar F-35 orrustuþotur, og mega Akureyringar og Egilsstaðabúar gera ráð fyrir að verða varir við þá á milli klukkan 10 og 15 í dag, mánudag, og síðan í nokkur skipti allt til 5. mars.

Alls munu um 130 liðsmenn norska flughersins taka þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum í stjórnstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Uedem í Þýskalandi og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þar hefur flugsveitin aðsetur.

Framkvæmd verkefnisins verður með sama hætti og fyrri ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland. Eins og með annan erlendan liðsafla sem dvelur tímabundið hér á landi gilda strangar sóttvarnarreglur meðan á dvöl norsku flugsveitarinnar stendur. Framkvæmdin er unnin í samvinnu við Embætti landlæknis og aðra sem koma að sóttvörnum hér á landi og í Noregi.

Landhelgisgæsla Íslands annast framkvæmd verkefnisins í samvinnu við Isavia. Ráðgert er að loftrýmisgæslunni ljúki í lok mars.

Akureyrarbær sendi frá sér tilkynningu um málið. Þar segir að talið hafi verið rétt að koma þessum upplýsingum á framfæri við bæjarbúa „þar sem nokkurt ónæði getur hlotist af aðflugsæfingum sem þessum.“