Fara í efni
Fréttir

Hátíðum MA-inga aflýst annað árið í röð

Nýstúdentar MA setja upp hvíta kollinn 17. júní að vanda, fara væntanlega í hópmyndatöku en skemmta sér ekki saman í Íþróttahöllinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Engar veislur verða í Íþróttahöllinni þann 16. og 17. júní í ár frekar en í fyrra, sakir fjöldatakmarkana vegna Covid. Í mörg ár hafa 25 ára stúdentar haldið jubilantahátíð 16. júní þar sem saman hafa verið komnir vel yfir 1.000 manns, eins árs stúdentar og margir afmælisárgangar. 25 ára stúdentar hafa ákveðið að aflýsa hátíðinni og skólayfirvöld tilkynntu líka í dag að ekki verði heldur hægt að halda veislu nýstúdenta, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans að kvöldi 17. júní. Afmælisárgangar ætla þó að fagna endurfundum hver í sínu lagi og mögulega geta nýstúdentar líka fagnað saman, þótt ekki verði fjölmenn sameiginleg veisla, samkvæmt upplýsingum frá skólanum.