Fara í efni
Fréttir

Harpa stóð sig vel á Norðurlandamóti í skák

Íslenski hópurinn sem tók þátt i Norðurlandamótinu. Harpa Hrafney Karlsdóttir er lengst til hægri í miðröðinni.
Harpa Hrafney Karlsdóttir, 12 ára nemandi í Lundarskóla á Akureyri, stóð sig vel á Norðurlandamóti stúlkna í skák sem haldið var í Danmörku um nýliðna helgi. Harpa tefldi í C-flokki (12 ára og yngri) og háði þar frumraun á alþjóðlegu móti.
 
„Hún stóð sig með mikilli prýði, fékk 3 vinninga af 5 og var reyndar í góðum færum að landa fjórða sigrinum í lokaumferðinni, en missti af vænlegri leið í tvísýnni stöðu og varð að lúta í lægra haldi. Sigur hefði getað skilað henni upp í verðlaunasæti!“ segir á Facebook síðu Skákfélags Akureyrar. „Engu að síður mjög góður árangur og gott veganesti fyrir framhaldið. Harpa verður svo ein af fjórum eða fimm börnum frá Akureyri á Landsmóti í skólaskák á Ísafirði um næstu helgi. Nóg að gera!“