Fara í efni
Fréttir

Handtekinn eftir umsátur við Ásatún

Lögreglan var með töluverðan viðbúnað í Ásatúni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Maður var handtekinn í fjölbýlishúsi við Ásatún á þriðja tímanum í dag, eftir að hann kastaði ruslatunnum fram af svölum, lét ófriðlega og hafði í hótunum við aðra íbúa hússins. Fréttastofa RÚV greindi fyrst frá málinu.

Lögreglan á Akureyri og sérsveit Ríkislögreglustjóra voru með talsverðan viðbúnað á staðnum og stóð umsátrið í um það bil tvær klukkustundir.  Á endanum brutu laganna verðir sér leið inn í íbúðina og handtóku manninn.

NÁNAR - Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér eftirfarandi skömmu eftir að fréttin birtist fyrst hér á Akureyri.net:

Um hádegisbil í dag var lögreglan kölluð að fjölbýlishúsi á Akureyri vegna hávaða frá pari og gruns um heimilisofbeldi. Er lögreglan kom á vettvang var konan komin út úr íbúðinni en maðurinn var enn innandyra og hafði í hótunum við lögreglumenn. Maðurinn var mjög æstur og talinn vera í annarlegu ástandi. Skorað var á hann að gefa sig fram við lögreglu en hann neitaði því staðfastlega. Eftir frekari samskipti við manninn mat lögregla aðstæður þannig að ekki væri unnt að skilja hann eftir einan í þessu ástandi. Tryggja yrði öryggi hans og annarra í húsinu. Eftir árangurslausar samningaviðræður við manninn, fór sérsveit Ríkislögreglustjórans inn í íbúðina og handtók hann kl. 14:24.

Nokkur viðbúnaður var á vettvangi meðan á þessu stóð og stýrðu lögreglumenn m.a. aðgangi að húsinu. Enginn meiddist í þessari aðgerð og fer málið nú í hefðbundinn rannsóknarfarveg.