Fara í efni
Fréttir

Handbolti og íshokkí af stað um helgina

Komandi helgi hefur að geyma fjölmarga kappleiki þar sem Akureyrarlið koma við sögu – handbolti, fótbolti og íshokkí á dagskránni.

Það sígur á seinni hlutann í fótboltanum, sem þýðir auðvitað að nú fara aðrar íþróttagreinar á fullt. Keppni á Íslandsmótinu í íshokkí hefst um komandi helgi þegar kvennalið SA sækir Fjölni heim. Olísdeildir karla og kvenna í handboltanum fara líka af stað með leikjum Akureyrarliðanna á föstudag og laugardag.

Hvaða líkur eru á því að þrjú knattspyrnulið í bæjarfélagi með um 20 þúsund íbúa tapi öll leik í viðbótartíma sömu helgina? Líklega ekki miklar, en einhverjar þó því einmitt þetta kom fyrir hjá Þór, Þór/KA og KA um liðna helgi. En þessi svekkelsi eru að baki og fram undan er barátta þessara liða á mismunandi stöðum í sínum deildum. Þór og Þór/KA eiga mikilvæga leiki um helgina, en hlé er á Bestu deild karla vegna landsleikja.

FÖSTUDAGUR 5. SEPTEMBER - handbolti

Þórsarar hefja leik í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olísdeildinni, á föstudag þegar þeir taka á móti ÍR-ingum í Íþróttahöllinni á Akureyri.

  • Olísdeild karla í handknattleik, 1. umferð
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:00
    Þór - ÍR

Þórsarar unnu Grill 66 deildina í fyrra, en ÍR-ingar voru í harðri fallbaráttu í Olísdeildinni. Þeir náðu á endanum 10. sætinu og tryggðu sér áframhaldandi sæti í efstu deild, tveimur stigum fyrir ofan Gróttu sem féll úr deildinni. 

LAUGARDAGUR 6. SEPTEMBER - handbolti, fótbolti, íshokkí

KA hefur leik í Olísdeildinni um komandi helgi, eins og keppinautarnir úr Þorpinu. KA sækir Selfyssinga heim í fyrstu umferð Olísdeildarinnar, en Selfyssingar fylgdu Þórsurum upp úr Grill 66 deildinni, enduðu í 2. sæti aðeins einu stigi á eftir Þór. KA endaði hins vegar í 9. sæti Olísdeildarinnar, fjórum stigum frá fallsæti. 

  • Olísdeild karla í handknattleik, 1. umferð
    Set-höllin á Selfossi kl. 16:00
    Selfoss - KA

- - -

Spennan magnast í toppbaráttu Lengjudeildarinnar í knattspyrnu. Þórsarar tylltu sér á toppinn í eina umferð fyrir skemmstu, en misstu toppsætið til Þróttara eftir tap gegn Selfyssingum á útivelli í 20. umferðinni þar sem Selfyssingar skoruðu sigurmark í viðbótartíma í 3-2 sigri. Nú er komið að síðasta heimaleik liðsins í deildarkeppninni, en það veltur síðan á því í hvaða sæti Þórsarar enda. Fari svo að þeir endi í 2.-5. sæti fara þeir í umspil og fá þá einn heimaleik í viðbót. Þórsarar fóru niður í 3. sætið eftir tapið á Selfossi, eru með 39 stig að loknum 20 umferðum, en Njarðvík og Þróttur eru fyrir ofan með 40 og 41 stig.

  • Lengjudeild karla í knattspyrnu, 21. umferð
    Boginn kl. 16
    Þór - Fjölnir

Að loknum 20 umferðum situr Fjölnir í botnsæti deildarinnar með 15 stig og þarf að minnsta kosti þrjú stig úr tveimur síðustu leikjunum til að eiga möguleika á að halda sér í deildinni. Þórsarar unnu öruggan fimm marka sigur þegar þessi lið mættust á heimavelli Fjölnis í lok júní. 

- - -

Þór/KA sækir Stjörnuna heim í Garðabæinn á laugardag. Baráttan um sæti fyrir ofan strik fyrir tvískiptingu deildarinnar er í algleymingi. Að loknum 15 umferðum eru bæði þessi lið í efri hluta deildarinnar. Þór/KA er í 5. sætinu með 21 stig og Stjarnan sæti neðar með 19 stig. Þar á eftir er ekki langt í Fram og Víking, sem eru með 18 og 16 stig.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, 16. umferð
    Samsungvöllurinn í Garðabæ kl. 16
    Stjarnan - Þór/KA

Stjarnan vann FHL á útivelli í 14. umferðinni, 3-0, en Þór/KA tapaði fyrir Fram í Boganum. Fyrri leik þessara liða í deildinni í sumar lauk með 1-0 sigri Þórs/KA í Boganum.

- - -

Samkvæmt keppnisdagatali ÍHÍ hefst keppni í Toppdeild kvenna um komandi helgi, en á sama tíma standa yfir landsliðsæfingar karla og hefst keppni í Toppdeild karla viku síðar. Eins og áður eru það þrjú lið sem berjast um Íslandsmeistaratitilinn í Toppdeild kvenna, SA, Fjölnir og SR. Fyrsti leikur deildarinnar er á milli liðanna sem spiluðu til úrslita í vor, Fjölnis og SA. 

  • Toppdeild kvenna í íshokkí
    Egilshöllin kl. 16:45
    Fjölnir - SA

SUNNUDAGUR 7. SEPTEMBER - handbolti

KA/Þór, kvennalið Akureyringa í handboltanum, er komið aftur upp í deild þeirra bestu eftir árs fjarveru og tekur á móti Stjörnunni í fyrstu umferð Íslandsmótsins á laugardag.

  • Olísdeild kvenna í handknattleik, 1. umferð
    KA heimilið kl. 15:30
    KA/Þór - Stjarnan

KA/Þór vann Grill 66 deildina í fyrra, en Stjarnan endaí í 7. og næstneðsta sæti Olísdeildarinnar og vann síðan Víking og Aftureldingu í umspili um sæti í Olísdeildinni.