Fara í efni
Fréttir

Hámarkshraði lækkaður á Hlíðarfjallsvegi

Hámarkshraði á Hlíðarfjallsvegi upp fyrir frístundabyggðina í Hálöndum verður lækkaður úr 70 í 50 km/klst.

Þessi ákvörðun var tekin á fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar núna í vikunni að beiðni Hálanda ehf. Umsókn um viðbótartengingu inn á Hlíðarfjallsveg úr frístundabyggðinni var hins vegar hafnað á grundvelli neikvæðrar umsagnar frá Vegagerðinni. Um ræðir fullnaðarafgreiðslu af hálfu ráðsins.

Upphaflega var fjallað um málið í skipulagsráði í febrúar þar sem tekin var fyrir umsókn Halldórs Jónssonar fyrir hönd Hálanda ehf. þar sem óskað var eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir 3. áfanga frístundasvæðis í Hálöndum. Þar var fyrirhuguð ný vegtenging milli Hörpulands og Hlíðarfjallsvegar og að tenging Hörpulands við Hyrnuland myndi falla út.

Afgreiðslu málsins hafði verið frestað í febrúar þar til fyrir lægju umsagnir Vegagerðarinnar og umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar. Í umsögn Vegagerðarinnar er bent á Hlíðarfjallsvegur sé tengivegur af tegund C8 og að samkvæmt veghönnunarreglum þurfi bil á milli tenginga á slíkum vegi að vera að minnsta kosti 200 metrar, hvort sem hámarkshraði er 70 eða 50 km/klst. Samkvæmt tillögunni sem um ræðir yrðu hins vegar 121 metri og 105 metrar á milli tenginga. Niðurstaðan var því að Vegagerðin gæti ekki fallist á nýja tengingu á umræddum stað.

Skipulagsuppdráttur sem fylgdi umsókninni.

Rauði hringurinn sýnir svæðið þar sem Hörpuland mun rísa samkvæmt skipulagi og hvar tengingin við Hlíðarfjallsveg sem sótt var um hefði komið. Svarta strikið sýnir hins vegar tenginguna eins og hún verður samkvæmt gildandi skipulagi – en sótt var um að fella þessa tengingu út og fara þessi í stað beint inn á Hlíðarfjalls veg frá Hörpulandi, sem verður ekki. Á myndinni sést einnig afstaða umrædds svæðis gagnvart öðrum hlutum frístundabyggðarinnar. skjáskot af ja.is.