Halldór Blöndal fv. ráðherra er látinn
Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis, er látinn 87 ára að aldri. Hann var fæddur í Reykjavík 24. ágúst 1938 og lést í fyrrinótt, aðfararnótt 16. desember.
Halldór var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Norðurlandskjördæmi eystra, síðar Norðausturkjördæmi, frá 1979 til 2007. Áður hafði hann verið varaþingmaður frá 1971. Hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra 1991 til 1995, samgönguráðherra 1995 til 1999, og gegndi síðan embætti forseta Alþingis frá 1999 til 2005.
Foreldrar Halldórs voru Lárus H. Blöndal (f. 1905, d. 1999) bókavörður og fyrsta kona hans Kristjana Benediktsdóttir (f. 1910, d. 1955) húsmóðir, systir Bjarna Benediktssonar alþingismanns og ráðherra og Péturs Benediktssonar alþingismanns.
Systkin Halldórs eru Benedikt, hæstaréttardómari, f. 1935, d. 1991, Kristín, framhaldsskólakennari, f. 1944, d. 1992, Ragnhildur, bókasafnsfræðingur, f. 1949, og Haraldur, f. 1946, d. 2004.
Fyrri eiginkona Halldórs var Renata Brynja Kristjánsdóttir (f. 1938, d. 1982). Þau skildu 1967. Foreldrar hennar voru Kristján P. Guðmundsson og kona hans Úrsúla Beate Guðmundsson, fædd Piernay.
Síðari eiginkona Halldórs var Kristrún Eymundsdóttir (f. 1936, d. 2018) kennari. Foreldrar hennar voru Eymundur Magnússon og kona hans Þóra Árnadóttir.
Dætur Halldórs og Renötu eru Ragnhildur, fædd 1960 og Stella f. 1964. Sonur Halldórs og Kristrúnar er Pétur, fæddur 1971. Barnabörn Halldórs eru sex og langafabörnin sjö.
Halldór Blöndal varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1959 og nam lögfræði og sagnfræði við Háskóla Íslands.
Hann vann við hvalskurð í hvalveiðistöðinni í Hvalfirði á 15 vertíðum frá 1954 til 1974. Á árunum 1959-1980 starfaði Halldór sem kennari, m.a. við Gagnfræðaskólann á Akureyri, og sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Hann vann á Endurskoðunarstofu Björns Steffensens og Ara Ó. Thorlacius á Akureyri 1976–1978.