Fara í efni
Fréttir

Hagurinn vænkast á næstu árum

Samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir næsta ár verður 671,9 milljóna króna tap á rekstrinum. Fyrri umræða um áætlunina var í bæjarstjórn í gær, þar sem talað var mjög almennt um rekstur og fjárhag bæjarins en seinni umræða verður á fundi bæjarstjórnar 14. desember.

Í gær var einnig lögð fram áætlun fyrir árin 2023 til 2025 og skv. henni vænkast hagur bæjarins; gert er ráð fyrir smávægilegum hagnaði árið 2023, 403 milljónum árið 2024 og spáð er rúmlega 800 milljóna króna hagnaði á rekstrinum árið 2025.

Rekstur sveitarfélagsins skiptist í A- og B-hluta. Sjá skýringu á þeirri skiptingu neðst í fréttinni.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, fylgdi fjárhagsáætluninni úr hlaði á fundi bæjarstjórnar í gær. Hann sagði meðal annars:

  • Útsvarsprósentan verður 14,52% á árinu 2022 eins og undanfarin – hámarksútsvarsprósenta sem sveitarfélögum er heimilt að leggja á íbúa sína.
  • Meginþorri sveitarfélaga í landinu leggur á hámarksútsvar og með sífellt háværari umræðu um sjálfbærni sveitarfélaga og takmarkaða tekjumöguleika þá liggur í augum uppi að mínu mati að nýta beri útsvarsálagningu til fulls.
  • Gert er ráð fyrir að fasteignaskattur sem hlutfall af fasteignamati íbúðarhúsnæðis verði óbreyttur, sorphirðugjöld hækki um 3%, gjöld veitna, raf-, hita- og fráveita hækki almennt um 4,2% en vatnsveitugjöld um 2,5%.
  • Nokkrar umræður hafa orðið í samfélaginu um umbótaverkefnin sem unnið er að, sem er vel því við gerð fjárhagsáætlunar þurfum við horfa til aðhalds í rekstri og vissulega er verið að draga úr kostnaði enda lítið annað í boði ef við ætlum að ná rekstrinum í rétt horf.
  • Í flestum tilfellum er um að ræða aðgerðir sem koma lítið við almenning en svo eru þarna breytingar á þjónustu sem munu kalla á sterk viðbrögð í samfélaginu.
  • Það er ljóst að svokallaðir lífskjarasamningar og stytting vinnuvikunnar hafa haft veruleg áhrif á launakostnað sveitarfélagsins og ég ætla ekki að draga úr því að þörf var á að leiðrétta kjör starfsmanna sveitarfélaga.
  • Þetta skapar hins vegar tímabundna erfiðleika í rekstri og við því erum við að bregðast.
  • Líklegt er að áætlunin taki einhverjum breytingum á milli fyrri og seinni umræðu í bæjarstjórn.
  • Við framlagningu fjárhagsáætlunar 2021 gætti allnokkrar svartsýni. Óljóst var þá hvaða áhrif Covid hefði á reksturinn, niðurstöðu ársins 2020 og ekki síður afkomu þessa árs. Bæjarstjórn var þó einhuga í því þrátt fyrir markmið um sjálfbærni, að gripið yrði til tiltölulega mildra aðgerða og reynt yrði að verja störf eins og kostur væri. Hagstæð skuldastaða sveitarfélagsins yrði nýtt og ekki yrði dregið úr framkvæmdum sem fjármagnaðar yrðu með lántöku. Þetta hefur gengið eftir á árinu 2021.
  • Sem betur fer varð niðurstaða ársins 2020 ekki alveg eins slæm eins og búist var við þegar umræður um fjárhagsáætlun síðasta árs fóru fram og má það ekki síst þakka viðbrögðum stjórnvalda í gegnum mestu niðursveifluna. Þær aðgerðir sem farið var í leiddu svo til þess að samfélagið var mun betur í stakk búið til að takast á við yfirstandandi ár og þróun útsvarstekna fyrstu 10 mánuði ársins gefur tilefni til ákveðinnar bjartsýni en staðgreiðsla útsvars yfirstandandi árs er um 10% hærri en á árinu 2020.
  • Þessa góðu þróun má rekja til betra atvinnuástands og ekki síður þess að bæjarbúum hefur fjölgað hraðar á árinu en áætlanir gerðu ráð fyrir en á árinu hefur íbúum fjölgað um ríflega 350 skv. síðustu talningu. Því má búast við að rekstrarniðurstaða yfirstandandi árs fyrir fjármunaliði verði betri en áætlanir gerðu ráð fyrir sem gefur væntingar um betri afkomu á næstu árum.
  • Í rekstrarreikningi (samstæðunnar, A- og B-hluta) er gert ráð fyrir að tekjur verði 27,1 milljarður kr. en rekstrargjöld verði ríflega 23,9 milljarðar króna.
  • Niðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði er því áætluð tæpir 3,2 milljarðar króna. Afskriftir eru áætlaðar 2,1 milljarður króna og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur tæp 1,7 milljarður og áætluð rekstrarniðurstaða að teknu tilliti til tekjuskatts er neikvæð um 672 milljónir króna.
  • Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi samstæðunnar er veltufé frá rekstri áætlað 3 milljarðar króna eða sem svarar 11,1% af rekstrartekjum. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum eru áætlaðar 3,2 milljarðar króna. Afborganir langtímalána eru áætlaðar að nemi ríflega 1,5 milljarði króna og gert ráð fyrir að tekin verði lán fyrir tæpa 1,3 milljarð króna. Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að handbært fé sveitarfélagsins verði tæplega 2,5 milljarðar króna í árslok 2022.
  • Áætlað er að eignir í efnahagsreikningi í árslok 2022 verði bókfærðar á um 62 milljarða króna, þar af eru veltufjármunir 5,7 milljarðar króna.
  • Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum eru áætlaðar samkvæmt efnahagsreikningi 38,4 milljarðar króna í árslok 2022, þar af eru skammtímaskuldir 5,4 milljarðar króna.
  • Bókfært eigið fé er áætlað að nemi 23,6 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall um 38,1%.
  • Skuldir sveitarfélagsins eru áætlaðar í árslok 2022 142% af tekjum en þegar horft er til skuldahlutfalls skv. reglum um fjárhagsleg viðmið eru skuldir áætlaðar 103% af tekjum. Veltufjárhlutfall samstæðunnar er áætlað 1,05 í árslok 2022.

A-hluti

  • Gert er ráð fyrir að tekjur A-hluta sveitarfélagsins verði 22 milljarðar króna. Útsvarstekjur eru áætlaðar tæpir 12,3 milljarðar króna sem er 5,6% hækkun frá útkomuspá ársins 2021.
  • Fasteignaskattur er áætlaður 2,6 milljarðar króna og hækkar um 7,7% sem er vegna fjölgunar eigna i fasteignamati og breytinga á heildarfasteignamati. Hækkun íbúðarhúsnæðis á milli ára er 1,7% að meðaltali. Framlög frá Jöfnunarsjóði eru áætluð 3,8 milljarðar og aðrar tekjur er áætlaðar tæpir 3,8 milljarðar.
  • Rekstrargjöld A- hluta eru áætluð 21,1 milljarður og niðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði er tæpar 890 milljónir króna. Afskriftir eru um 1 milljarður króna og fjármagnsliðir eru áætlaðir tæpur 1 milljarður þannig að rekstrarniðurstaða A-hluta verður neikvæð um 1,1 milljarð króna gangi áætlanir eftir.
  • Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi er veltufé frá rekstri hjá A-hluta áætlað tæpir 1,2 milljarður króna eða sem svarar 5,3% af rekstrartekjum.

Aðalsjóður

  • Tekjur aðalsjóðs eru áætlaðar 24,5 milljarðar króna á árinu 2022. Tekjurnar skiptast þannig að skatttekjur eru áætlaðar 14,9 milljarðar, framlög jöfnunarsjóðs 3,8 milljarðar og aðrar tekjur 5,8 milljarðar króna.
  • Laun og launatengd gjöld í aðalsjóði eru áætluð 13,6 milljarðar króna, lífeyrisskuldbinding 800 milljónir króna og annar rekstrarkostnaður 12,1 milljarður króna. Þá er gert ráð fyrir að fjármunatekjur umfram fjármagnsgjöld verði 208 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða Aðalsjóðs er áætluð neikvæð um 1,8 milljarður króna.
  • Gert er ráð fyrir ríflega 4,8 milljörðum til félagsþjónustu, um 9,1 milljarði til fræðslu- og uppeldismála, tæpum milljarði til menningarmála og rúmum 2,3 milljörðum til æskulýðs- og íþróttamála.
  • Til umferða og samgöngumála er áætlað að verja 1,1 milljarði, 368 milljónum til umhverfismála og atvinnumálin taka 163 milljónir króna. Sameiginlegur kostnaður er áætlaður rétt um 1 milljarður og breyting á lífeyrisskuldbindingu 800 milljónir króna. Að teknu tilliti til fjármunatekna er rekstur aðalsjóðs neikvæður eins og áður segir um 1,8 milljarð króna króna.
  • Gert er ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu af rekstri fasteigna upp á 575 miljónir króna, rekstur framkvæmdamiðstöðvar er áætlaður með ríflega 11 milljón króna tapi en eignasjóður verður með 105 milljón króna hagnað gangi áætlanir eftir.

B-hluta fyrirtæki og sjóðir

  • Af rekstri B-hluta fyrirtækja ber helst að nefna Norðurorku en gert er ráð fyrir 368 milljón króna hagnaði af rekstri.
  • Áætlað er að hagur Hafnasamlagsins muni vaxa á komandi ári eftir mögur ár í Covid og rekstrarhagnaður er áætlaður 144 milljónir króna.
  • Þá er gert ráð fyrir að bifreiðastæðasjóður skili 39 milljón króna hagnaði á árinu, en gjalden eins og kemur fram hér síðar á fundinum munum við hefja gjaldtöku á bílastæðum í miðbæ á næsta ári. Alls er gert ráð fyrir að B hluta fyrirtæki skili samtals 542 milljón króna hagnaði og rekstrarniðurstaða ársins verði neikvæð um 672 milljónir króna eins og áður hefur komið fram.

Framkvæmdaáætlun

  • Framkvæmdir ársins 2022 eru áætlaðar alls 3,2 milljarðar króna sem skiptast nokkuð jafnt milli A- og B hluta. Þegar horft er til helstu framkvæmda þá er gert ráð fyrir um 850 milljónum króna til fræðslumála og 323 milljónir fara til æskulýðs og íþróttamála. Í eignasjóði gatna er gert ráð fyrir ríflega 1 milljarði króna í framkvæmdir en áætluð gatnagerðargjöld ársins sem koma til lækkunar verði 800 milljónir króna. Eins og áður eru helstu framkvæmdir B-hluta fyrirtækja hjá Norðurorku eða um 1,1 milljarður og hjá Hafnasamlaginu um 240 milljónir króna.

Hér má sjá frumvarp að fjárhagsáætlun bæjarins 2022 til 2025.

Til glöggvunar:

  • A-hluti sveitarfélagsins er aðalsjóður og eignasjóðir. Í aðalsjóði er rekstur málaflokka og þjónusta við íbúa bæjarins sem er fjármögnuð með skattekjum og þjónustugjöldum. Í Fasteignum Akureyrarbæjar, Eignasjóði gatna og Umhverfismiðstöð er haldið utan um rekstur, viðhald og stofnframkvæmdir fasteigna, gatna og hirðingu bæjarlandsins. Í áætlun A-hluta er milliviðskiptum vegna innri leigu, fasteignaskatta og afnota af íþróttamannvirkjum jafnað út á milli stofnana.
  • Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki og rekstrareiningar sem eru í eigu bæjarins og fjármögnuð eru með þjónustutekjum en þau eru m.a. Félagslegar íbúðir, Bifreiðastæðsjóður, Strætisvagnar Akureyrar, Hafnasamlag Norðurlands, Hlíðarfjall og Norðurorka.