Hagnýtar upplýsingar um Vor í Vaglaskógi

Tónlistarhátíðin Vor í Vaglaskógi verður haldin á morgun, laugardaginn 26. júlí, rétt sunnan við Vaglaskóg, þar sem Kaleo og fleira tónlistarfólk kemur fram. Mikill áhugi er fyrir hátíðinni, allir 7.000 miðarnir seldust upp á augabragði, og ljóst að leggjast hefur þurft í talsverða vinnu við mannfjöldastýringu og umferðarskipulagningu. Hraðbrautir finnast engar í Fnjóskadal og bílastæði anna varla fleirum en þeim sem vanalega gista á tjaldsvæðunum. Við þetta bætist skipulagning öryggisgæslu, veitingaþjónustu og snyrtinga, svo eitthvað sé nefnt.
Til að dreifa umferðinni og einfalda aðkomu tónleikagesta hafa skipuleggjendur tónleikanna gripið til ýmissa aðgerða. Til að mynda verður boðið upp á rútuferðir til og frá tónleikunum, afmarkað tjaldsvæði verður á staðnum og skutlferðir frá stóru túni hinum megin Fnjóskár, sem notað verður sem bílastæði fyrir þau sem koma á einkabílum.
- Tjaldsvæðið við tónleikastaðinn verður opnað kl. 16 í dag, föstudag og er það einungis ætlað hefðbundnum tjöldum en ekki ferðavögnum. Bílastæði tjaldgesta verður þar við hliðina en vakin er athygli á því að umferð um tónleikasvæðið verður lokað kl. 14 á laugardag og þá verður ekki fleiri bílum hleypt inn á stæðið. Ekki verður mögulegt að aka burtu fyrr en að afloknum tónleikum.
- Tjaldsvæði fyrir ferðavagna og almenn bílastæði fyrir þau sem koma akandi á tónleikana verða á túni Hróarsstaða hinum megin við ána, í um tveggja kílómetra fjarlægð frá tónleikasvæðinu. Þetta svæði verður opnað á laugardaginn kl. 10. Skutlur verða í boði frá Hróarsstöðum á tónleikasvæðið frá kl. 14 til 18 á laugardag.
- Tónleikahaldarar benda á að hagstæðast sé fyrir þau sem ætla bara að sækja tónleikana og fara síðan heim að þeim loknum að nýta sér sætaferðir með SBA. Rútur munu fara frá Glerártorgi á klukkutíma fresti milli kl. 11 og 17. Farið fram og til baka kostar 3.900 krónur á mann og hægt er að bóka sæti á vefsíðu SBA. Forráðamenn Glerártorgs báðu Akureyri.net að koma þeim tilmælum til fólks að skilja einkabíla ekki eftir á stæðum við verslunarmiðstöðina.
Allar nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu hátíðarinnar og þar á meðal er þessi skýringarmynd af tónleikasvæðinu. Þar sést m.a. að tjaldsvæði tónleikagesta er við hlið tónleikasvæðisins og bílastæði tjaldgesta þar við hliðina.