Hafna tillögu um fimm hæða hús

Meirihluti skipulagsráðs Akureyrar hafnaði í síðustu viku tillögu að uppbyggingu fjölbýlishúss á lóð við Hvannavelli, þar sem nú stendur hús sem lengi var í eigu Hjálpræðishersins.
Á fundi ráðsins snemma í febrúar var skipulagsfulltrúa falið að vinna áfram að gerð deiliskipulags með þeim skilmálum að bygging á lóðinni yrði að hámarki fjórar hæðir með efstu hæðina inndregna og að sett yrði kvöð um skjólvegg á lóðamörkum. Eigandi lóðarinnar lagði engu að síður fram endurskoðaða tillögu þar sem áfram var gert ráð fyrir fimm hæðum en til að minnka áhrif skuggavarps á hús austan lóðarinnar hafði byggingunni verið hliðrað til vesturs auk þess sem útliti hennar hafði verið breytt.
Skipulagsfulltrúa var á fundinum falið að vinna áfram að gerð deiliskipulags fyrir svæðið á þeim forsendum sem koma fram í bókun ráðsins frá því í febrúar.
Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs, taldi ekki ástæðu til að hafna erindinu og sat hjá við afgreiðslu málsins.
Hann bókaði eftirfarandi: „Ég tel að það sé ekki ástæða til að hafna erindinu þar sem sýnt er fram á að með tilfærslu hússins innan byggingarreits og breyttri hönnun að skuggavarp komi ekki til með að aukast með þessari hækkun og sé sambærilegt við þá tillögu sem áður var samþykkt. Mikilvægt er að við hefjum uppbyggingu Oddeyrar þar sem þetta er okkar besti staður til að þétta byggð og spara í rekstri bæjarins.“
Nánari upplýsingar hér um tillöguna.
Vestur- og suðurhlið hússins skv. tillögunni. Hægra megin eru Hvannavellir 8, í fjarska fyrir miðri mynd er hús við Sólvelli og vinstra megin eru Hvannavellir 12.