Fara í efni
Fréttir

Hættir sem formaður Samfylkingarinnar

Logi á forsíðu Fréttablaðsins í morgun: Ég kveð formennskuna sáttur.
Logi á forsíðu Fréttablaðsins í morgun: Ég kveð formennskuna sáttur.

Logi Már Einarsson hættir sem formaður Samfylkingarinnar í haust. Hann segir frá ákvörðun sinni um að bjóða sig ekki aftur fram til formennsku í flokknum, í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson, ritstjóra Fréttablaðsins, sem birtist í blaðinu í morgun. Hann mun sitja áfram á Alþingi sem óbreyttur þingmaður.

Samtal Akureyringanna tveggja er stórskemmtilegt – sem kemur hreint ekki á óvart!

„Sumarið hefur sest að í andliti Loga Más Einarssonar þar sem ég hitti hann vestur á Seljavegi í Reykjavík á heiðríkum júnídegi, en heita má að sólin strái silfri á skalla þessa lífsglaða manns þegar við snörumst utan af gangstéttinni og Logi lýkur upp dyrunum að litlu íbúðinni sinni í gula húsinu við götuna, en það er afdrep hans í Reykjavík,“ skrifar Sigmundur Ernir í upphafi viðtalsins.

Síðan skrifar ritstjórinn:

„Kannski enginn Garðabæjargelmir,“ hefur hann á orði um þessi híbýli sín, „en nóg fyrir strák að norðan,“ bætir hann við, léttur í lyndi, þegar hann sest á móti gömlum granna sínum af Syðri-Brekkunni á Akureyri, en báðir mega nú heita miðaldra og hafa skotið misjafnlega sterkur rótum í Reykjavík, hann þó sýnu veikari en sá sem hér heldur á penna.“

Logi kveðst, í samtalinu við Sigmund Erni, kveðja sáttur. Ritstjórinn skrifar: „Alveg afskaplega sáttur,“ segir hann ákveðið og leggur áherslu á það með hreyfingu handa sinna. „En ég er auðvitað að axla ábyrgð. Við skulum ekkert horfa framhjá því. Ég er að hætta sem formaður af því að ég er sannfærður um að aðrir geti gert betur en ég,“ segir Logi og kveðst engu að síður geta horft stoltur um öxl.

Smellið hér til að lesa allt viðtalið á vef Fréttablaðsins