Fara í efni
Fréttir

Hætta við vegatálma á leiðinni upp í fjall

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hlutirnir gerast hratt á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Tilkynnt var síðdegis að vegatálmar yrðu á leiðinni upp í fjall á morgun og um helgina, og fólk þyrfti að sýna kvittun fyrir miðakaupum til að fá að keyra upp eftir. Forráðamenn skíðasvæðisins telja nú að það fyrirkomulag verði ekki nauðsynlegt. Stefnt er að því stýra málum enn frekar í gegnum netið og lokaútfærsla verður kynnt í kvöld. Akureyri.net fylgist með og upplýsir lesendur eftir því sem málinu vindur fram.

Vegna fjöldatakmarkana verður skíðasvæðinu tvískipt eins og greint var frá hér í morgun. Ákveðið hefur verið að á morgun, föstudag, verði hægt að velja um tvo passa, annars vegar fyrir allan daginn, hins vegar þriggja tíma tíma kort. Þannig verður fyrirkomulagið á virkum dögum framvegis.

Eingöngu verður hægt að kaupa miða á netinu og verður miðasalan opnuð snemma á morgun, föstudag. Hægt verður að velja um tvö tímabil hvern dag:

Föstudagur: Heill dagur eða þrír tímar - svæðið opið frá klukkan 12.00 til 19.00

Laugardagur: 10.00 - 13.00 og 14.00 - 17.00

Sunnudagur: 10.00 - 13.00 og 14.00 - 17.00

Lyftum verður lokað í klukkustund á milli á meðan fer úr fjallinu og aðrir koma á staðinn.

Miðasala verður opin fyrir þá sem vantar Skidata kort og þá sem þurfa einhverja aðstoð.