Fara í efni
Fréttir

Hækka leigu á félagslegu húsnæði

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkti nýlega hækkun á gjaldskrá fyrir leigu á félagslegu húsnæði í eigu bæjarins. Fulltrúar meirihlutaflokkanna ásamt Jóni Hjaltasyni, sem er óflokksbundinn, samþykktu breytinguna, en bæjarfulltrúar S-lista, B-lista og V-lista sátu hjá. Fulltrúar minnihlutaflokkanna gerðu athugasemdir við málið við afgreiðslu velferðarráðs, bæjarráðs og bæjarstjórnar. Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins benda á í bókun að leigan hækki núna um 6% umfram verðlag, sem komi ofan á aðra 6% hækkun árið 2022 og 4% hækkun árið 2021.

Við afgreiðslu í velferðarráði sat Snæbjörn Ómar Guðjónsson frá V-lista hjá og lagði fram bókun þar sem hann minnti á rammasamning ríkis og sveitarfélaga fyrir árin 2023-2032 um uppbyggingu á félagslegu húsnæði sem Akureyrarbær hefur samþykkt. Jafnframt benti hann á að tölur í húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar til 2031 sýndu augljóslega aukna þörf á félagslegu leiguhúsnæðis. Því blasi við að ein af lausnunum á erfiðri rekstrarstöðu félagslega leiguhúsnæðisins sé að endurnýja og fjölga íbúðum, horfa þurfi til lengri tíma, fjárfesta í þessari grunnþjónustu með langtímamarkmið og velferð þessa viðkvæma hóps í huga.

Segja að gætt sé hófs í hækkunum

Bæjarfulltrúar meirihlutans lögðu fram bókun við afgreiðslu málsins þar sem bent er á að hækka þurfi húsaleigu félagslegra íbúða til að tryggja fjármagn til nauðsynlegs viðhalds og áframhaldandi uppbyggingar félagslega húsnæðiskerfisins.

Þau benda á að gætt sé hófs í hækkunum og leiga félagslegra íbúða sé enn, eftir breytingu, almennt lægri en í öðrum félagslegum úrræðum, auk þess að samhliða hækkun á leiguverði félagslegra leiguíbúða hækki sérstakur húsnæðisstuðningur og unnið sé að breytingum á reglum um þann stuðning sem verði gerðar til að verja viðkvæmustu hópana.

Vildu afgreiða sérstaka stuðninginn samhliða

Við afgreiðslu í bæjarráði sátu Hilda Jana Gísladóttir frá S-lista og Sunna Hlín Jóhannesdóttir frá B-lista hjá. Þær bentu á í bókun að til að hægt væri að taka afstöðu til breytinga á gjaldskránni hefði verið eðlilegt að taka samhliða fyrir breytingar á sérstökum húsnæðisstuðningi og áætlun um fjölgun félagslegra leiguíbúða. Biðlistar séu of langir og þörfin mikil.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúar B-lista, lögðu fram bókun í bæjarstjórn þar sem þau segjast ekki styðja 6% hækkun umfram verðlag á gjaldskránni, sem bætist ofan á miklar hækkanir undanfarin ár, 6% árið 2022 og 4% árið 2021. Hér sé um að ræða umtalsverðar hækkanir á viðkvæman hóp sem ætti að afgreiða í bæjarstjórn samhliða hækkunum á sérstökum húsnæðisbótum. Þá líst þeim ekki á þau skilaboð sem slíkar hækkanir á gjaldskrám bæjarins senda inn í kjarasamningaviðræður vetrarins.

Hilda Jana Gísladóttir frá S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir frá V-lista bókuðu einnig um samhengi þessara hækkana við endurskoðun á sérstökum húsnæðisstuðningi og áætlun um fjölgun leiguíbúða sem óheppilegt sé að skuli ekki vera tekið fyrir samhliða þessari ákvörðun um gjaldskrárhækkanir, sem að þeirra mati virðast ansi miklar.