Fara í efni
Fréttir

Gul viðvörun en vegir færir

Skjáskot tekið af vegakorti á Safetravel.is á öðrum tímanum í dag.

Það er kuldalegt á Akureyri í dag þó ekki sé óveður í bænum. Gular veðurviðvaranir eru í gildi og verða einnig á morgun. 

Sunnudagur 14. maí: „Norðvestan 10-18 m/s og slydda eða snjókoma á fjallvegum, hvassast austantil. Skyggni getur orðið mjög takmarkað og hálka líkleg. Líkur á vetrarfærð, þ.a. ekki ætti að leggja í langferðir á vanbúnum bílum.“

Mánudagur 15. maí: Gul viðvörun Veðurstofunnar fyrir Norðurland eystra á morgun hljómar svo: „Norðan og norðvestan 8-15 m/s og snjókoma eða skafrenningur og lítið skyggni með köflum, einkum á fjallvegum. Varsamt vanbúnum ökutækjum.“

Athugasemd vakthafandi veðurfræðings á vedur.is í morgun hljómar svo: „Víða vetrarfærð á fjallvegum norðan- og austanlands. Einnig er búist við snjókomu og vetrarástandi á vegum norðantil á morgun. Vegfarendur ættu að kanna vel ástand vega og veðurspár áður en lagt er af stað.“

Akureyri.net hefur spurnir af því að einhverjum leikjum yngstu flokkanna í fótbolta hafi verið frestað þar sem viðkomandi félög hafi tekið ákvörðun um að ferðast ekki norður. En vegurinn er hins vegar fær í báðar áttir, leiðin öll græn á kortinu safetravel.is og lið Keflavíkur í 2. flokki kvenna mætt norður til að spila við Þór/KA. Keflvíkingar voru meira að segja óvenju snemma á ferðinni og leiknum því flýtt til kl. 15:15 (átti að vera kl. 16), en reyndar færður af KA-svæðinu inn í Bogann.