Fara í efni
Fréttir

Greiddi leigu fyrir húsnæði sem ekki er til

Hin spænska Ana kom til Íslands í ævintýraleit en hún hefur ferðast til allra landa í Evrópu og átti aðeins Ísland eftir. Dvöl hennar á Akureyri byrjaði ekki vel því hún lenti í leigusvindli. Hún er enn að leita að herbergi fyrir sumarið. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Leigumarkaðurinn á Akureyri er erfiður um þessar mundir og margir um hverja íbúð sem auglýst er. Akureyri.net spjallaði við tvær erlendar konur sem nýlega hafa orðið fyrir barðinu á leigusvindli á Akureyri. Önnur þeirra, Ana Gómex Marmolejo, 29 ára gömul stúlka frá Barcelona, deilir hér sögu sinni, öðrum til varnaðar.

Stuttu eftir komuna til Ísland setti Ana eftirfarandi auglýsingu á leigusíður á Facebook.

Til Íslands í ævintýraleit

„Ég vildi koma til Íslands því Ísland var síðasta landið í Evrópu sem ég átti eftir að heimsækja. Ég vissi að það er mjög dýrt að vera hér þannig ég hugsaði mér að freista gæfunnar með vinnu og skoða landið í leiðinni,“ segir Ana sem kom til Íslands með Norrænu í lok maí. Í ferjunni hitti hún íslenska konu frá Akureyri og eftir spjall við hana þá ákvað Ana að reyna fyrir sér á Akureyri með húsnæði og vinnu. „Ég var samferða henni til Akureyrar og bókaði gistingu á Backpackers fyrsta kvöldið þar sem það var einn ódýrasti gististaður bæjarins. Ég byrjaði á því að spyrjast fyrir um vinnu á Backpackers og fékk jákvætt svar og byrjaði því strax að vinna hér.“

Steinahlíð 6 er raðhús eins og öll önnur hús í götunni. Þar er engin íbúð númer 204 eins og stóð í leigusamningnum.

Íbúðin ekki til

Ana dvaldi þrjár nætur á gistiheimilinu en þar sem ljóst var að hún yrði á Akureyri til lengri tíma og gistiheimilið var fullbókað fór hún að leita sér að húsnæði. Hún setti inn auglýsingar á nokkrar leigusíður á Facebook þar sem hún sagðist vilja leigja herbergi á Akureyri fram á haustið. Ana segist hafa fengið nokkur skilaboð, m.a. frá manni sem sagði að það væri laust herbergi í íbúð sem hann byggi í og hann gæti komið henni í sambandi við eiganda íbúðarinnar. Ana fékk netfangið hjá eigandanum og skrifaði til hans. Sá svaraði strax og sendi myndir og upplýsingar um herbergið og íbúðina. „Íbúðin leit mjög vel út, bæði herbergið og sameiginleg svæði,“ segir Ana sem fékk einnig leigusamning sendan í tölvupósti sem hún undirritaði og sendi til baka.

Þetta eru skilaboðin sem Ana fékk á Facebook frá leigusvindlaranum sem hefur nú blokkað hana. Akureyri.net hefur rætt við aðra konu sem hann reyndi að svíkja.

„Mér datt ekki í hug að þetta væri svindl, þetta leit allt vel út með myndirnar og samninginn. Leigusalinn sagðist einnig búa á þessu sama heimilisfangi,“ segir Ana. Ekki var hægt að skoða íbúðina þann daginn þar sem leigusalinn var fastur í vinnu en þar sem Önu leist vel á allt saman og lá á að komast í öruggt húsnæði greiddi hún 100 þúsund krónur í tryggingu og eins mánaðar leigu, samtals 165.000 kr, án þess að fara að skoða íbúðina en Ana og leigusalinn ákváðu að hittast næsta dag kl. 17 í íbúðinni.

„Daginn eftir var ég búin fyrr í vinnunni en ég hafði áætlað og sendi honum því skilaboð hvort ég gæti komið fyrr en fékk ekkert svar,“ segir Ana. Klukkan fimm fór hún svo á umrætt heimilisfang til að hitta leigusalann og taka við lyklunum að íbúðinni eins og þau höfðu ákveðið daginn áður. Heimilisfangið sem gefið var upp á leigusamningnum var Steinahlíð 6, íbúð 204. Ana sá strax að íbúð 204 væri ekki til þar sem Steinahlíð 6 er raðhús, merkt með bókstöfum. „Við bönkuðum á eina hurðina í raðhúsalengjunni og spurðum út í íbúð 204. Þá var mér sagt að það væru aðeins bókstafir notaðir í götunni. Þá áttaði ég mig á því að það hafði verið svindlað á mér.“

Enn að leita að húsnæði

Ana fór strax til lögreglunnar og lagði fram kæru. Hjá lögreglunni segist Ana hafa fengið þær upplýsingar að leigusalinn væri ekki skrásettur á Íslandi og bankareikningurinn sem hún lagði leiguna inn á er í Hollandi. „Mér var sagt að það væri sjaldgæft að peningarnir næðust til baka í svona málum. Mér skilst að mitt mál verði sent til alþjóðlegadeildar lögreglunnar.“

Maðurinn sem Ana var í sambandi við í gegnum tölvupóst sagðist heita Jan Kabelak. Vert er að geta þess að konan sem Akureyri.net ræðir við á morgun fann hinn raunverulega Kabelak í gegnum forritið LinkedIn, þá kom í ljós að hann átti enga íbúð á Akureyri og bað hann hana vinsamlegast um að tilkynna málið til lögreglunnar.

Þó að Ana sé að vonum sár og svekkt yfir því hvernig dvöl hennar hér á landi hafi byrjað þá reynir hún að líta á björtu hliðarnar. Hún kann vel við sig á Backpackers og vonast til þess að dvelja á Akureyri fram í október/nóvember. Hún er þó enn að leita að samastað en hefur fengið inni hjá kunningjum fram að þessu. „Mig sárvantar t.d. húsnæði í júlí. Það er mjög erfitt að finna húsnæði hérna.“

Þegar Íslandsdvölinni lýkur í haust hyggur Ana á stutt ferðalag til Írans en annars liggur leið hennar hinu megin á hnöttinn. „Já ég er komin með „Working Holiday Visa“ í Ástralíu svo ég er að flytja þangað um áramótin.“ Aðspurð hvað hún hafi lært af þessu leigusvindlsmáli segist hún að auðvitað hefði hún átt að skoða íbúðina áður en hún greiddi leiguna. „Ég hefði átt að vera meðvitaðri um að leigusvindl viðgengst líka á Íslandi.“

  • Meira um leigusvindl á morgun