Fara í efni
Fréttir

Grátlegt tap eftir mjög góða frammistöðu

Ekkert var gefið eftir í Boganum í dag, hart tekist á og menn voru líka ófeimnir við að ræða málin tæpitungulaust! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu 1:0 fyrir Breiðabliki í dag í undanúrslitum Lengjubikarkeppninnar í knattspyrnu í Boganum. Þrátt fyrir tap geta Þórsarar verið afar ánægðir með frammistöðu liðsins; þetta var hörkuleikur tveggja góðra liða, Þórsarar nær sigri ef eitthvað var en Blikarnir gerðu eina markið þegar um það bil mínúta var eftir af átta mín. uppbótartíma.

Það var Aron Bjarnason sem skoraði; komst inn fyrir vörn Þórs eftir mjög góða sendingu frá Viktori Karli Einarssyni og vippaði yfir Aron Birki markvörð. Sannarlega grátleg niðurstaða miðað við gang mála.

Þórsarar höfðu unnið þrjú lið úr efstu deild Íslandsmótsins, Bestu deildinni, í mótinu til þessa en í báðum heimaleikjunum gegn mjög ungum andstæðingum. Hvorki Stjarnan né KR buðu upp á sína sterkustu sveit og töpuðu stórt, en nú fengu Þórsarar loks að móta sig af alvöru við mótherja úr Bestu deildinni. Blikarnir tóku leikinn alvarlega og úr varð skemmtileg barátta.

Hart var tekist á, full harkalega á stundum og tveir Þórsarar fóru meiddir af velli, en virkilega gaman var að sjá hve öflug liðsheildin er og ekki síst hve ungu strákarnir í Þórsliðinu geisla af sjálfsöryggi. Nokkrir leikmenn voru fjarverandi í dag, breiddin er meiri en oft áður og satt að segja mikið tilhlökkunarefni að fylgjast með liðinu í sumar. Þórsarar leika sem kunnugt er í næst efstu deild Íslandsmótsins, Lengjudeildinni.

Byrjunarlið Þórs í dag (3 - 4 - 3): Aron Birkir Stefánsson – Bjarki Viðarsson, Elmar Þór Jónsson, Ýmir Geirsson –  Kristófer Kristjánsson, Árni Elvar Árnason, Aron Ingi Magnússon, Marc Rochester Sörensen – Sigfús Fannar Gunnarsson, Ingimar Arnar Kristjánsson, Fannar Daði Malmquist Gíslason.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Ingimar Arnar Kristjánsson í góðu færi í seinni hálfleik en Anton Ari Einarsson í Blikamarkinu varði skotið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar aðgangsharðir við Blikamarkið. Fannar Daði Malmquist Gíslason með boltann lengst til vinstri.