Fara í efni
Fréttir

Granítbekkir Birnis gerðir að legsteinum

Birnir Vignisson sestur á sinn eigin bekk. Ljósmyndir: Haraldur Ingólfsson

Félag eldri Mývetninga vinnur að skemmtilegu verkefni í tengslum við nýjan göngustíg sem er í byggingu umhverfis Mývatn. Í samstarfi við Birni Vignisson, eiganda Steinsmiðju Akureyrar er unnið að því að koma fyrir granítbekkjum með reglulegu millibili við göngustíginn. Fyrsta sendingin af bekkjum er þegar farin austur, átta bekkir komnir í hendur Mývetninga og fleiri í smíðum. En bekkirnir hafa einnig verið notaðir í stað eða sem legsteinar, hönnuðinum að óvörum.


Fyrsta sendingin af granítbekkjum komin á pall og kerru og á leið austur í Mývatnssveit. Mynd: Steinsmiðja Akureyrar

Í Steinsmiðju Akureyrar ræður Birnir Vignisson ríkjum, en hann keypti fyrirtækið árið 2016 og flutti fljótlega út í Njarðarnes, nyrst í bænum. Reksturinn gengur mjög vel og nóg að gera að sögn Birnis. Hann er að vinna vöru fyrir viðskiptavini um allt land og núorðið fer til dæmis um 40% af vörunum á suðvesturhornið. Aðeins að stríða stóru strákunum, eins og Birnir orðar það.

Fjórir náttúrulegir litir

Birnir hannaði sjálfur bekkina sem Mývetningar eru að kaupa hjá honum. Nú þegar eru svona bekkir til staðar víða, meðal annars innanbæjar á Akureyri. Bekkirnir eru til í fjórum náttúrulegum litum. „Þetta eru granítbekkir, bara klettar, grjót úr náttúrunni sem er búið að pólera með demöntum, engin efni í þessu, engin litarefni eða neitt,“ segir Birnir. „Ég teiknaði þetta fyrir einhverjum tveimur eða þremur árum. Fyrsti bekkurinn, mér að óvörum, fór sem legsteinn. Þá skrifuðum við nöfnin í bakið á bekknum og hann fór sem legsteinn. Eftir það smitast það þannig að það er búið að taka helling af bekkjum í legsteina, um allt land,“ segir Birnir.

Hann er með fjóra liti og fær allt granítið frá sama birgjanum. Tveir af litunum koma frá Kína, einn frá Indlandi og einn frá Mongólíu. „Þetta er frá risastórum birgja sem útvegar mér granít frá Asíu, og það er harðasta og elsta granítið sem við fáum,“ segir Birnir. „Ég teikna þessa bekki, teikna þessa legsteina og þeir smíða eftir mínum hugmyndum og ég fæ þetta flatpakkað. Við skrifum á bekkina, járnabindum þá og límum þá saman.“ Vinna við hvern bekk getur verið frá nokkrum klukkutímum upp í 15 tíma eða meira.


Granítið kemur sagað og slípað með demöntum eftir forstkrift Birnis. 

Bekkirnir eru frábær viðbót

„Mér gengur mjög vel í legsteinunum og bekkirnir eru frábær viðbót þannig að ég þarf þess ekki,“ segir Birnir um það hvort hann sé þá minnst í því að saga granítið sjálfur. Birnir kveðst hafa skoðað tól og tæki til þess, en það sé einfaldlega of umfangsmikið fyrir þann litla markað sem hann vinnur með. Það er auðvitað talsvert mál að flytja granít frá Kína og er ekki gert nema í gámavís þannig að það liggja talsverð verðmæti í lagernum á hverjum tíma. Verkefni Birnis eru því meira í hönnun, áletrun, samsetningu og svo auðvitað sölustarfi. 

Bekkirnir eru til dæmis í nokkrum hlutum sem sagaðir eru og slípaðir eftir hönnun Birnis. Þeir eru svo settir saman hér, borað í þá og festir saman með járnteinum og lími. Granítið hefur svo þann kost að bekkirnir eru algjörlega viðhaldsfríir og segja má að þeir séu með innbyggða þjófavörn því hver bekkur er um 140 kíló og ekki hlaupið að því að fara með þá á flakk eins og stundum gerist með léttari bekki, einkum í þéttbýlinu. 

Frá Kína til Akureyrar og þaðan út um allt land, meðal annars í Mývatnssveitina. Þannig ferðast harðasta granít heims, er mótað af mönnum og mun áður en langt um líður gera gönguglöðum Mývetningum og gestum þeirra kleift að æja og hvíla lúin bein. Átta bekkir eru nú þegar farnir austur, fleiri á leiðinni fljótlega og enn fleiri þegar stígurinn lengist.

Akureyri.net mun að sjálfsögðu fylgjast með þegar Félag eldri Mývetninga kemur fyrsta bekknum fyrir við nýja göngustíginn.