Fara í efni
Fréttir

Göngu- og hjólastígur frá Akureyri að Þelamörk

Hin sívinsæla Jónasarlaug á Lauglandi. Sveitarstjórn Hörgársveitar hefur gefið það út að á kjörtímabilinu verði fyrsti áfangi göngu- og hjólastígsins í Hörgársveit kláraður og því verður fljótlega hægt að ganga og hjóla frá Akureyri út að Lauglandi á Þelamörk. Ljósmynd:Skapti Hallgrímsson

Árið 2020, þegar sveitarfélagið Hörgársveit átti 10 ára afmæli, var samþykkt að íbúum yrði gefinn göngu- og hjólastígur sem liggja myndi frá Lónsá og út að Laugalandi á Þelamörk. Nú er komið að efndum, en framkvæmdir Landsnets við Dalvíkurlínu 2 styðja við þessi áform.

„Þetta er bara mjög spennandi samfélagslegt verkefni að auka lýðheilsu með því að hjálpa fólki að fara út að hjóla og ganga,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, skipulagsfulltrúi í Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppi og Grýtubakkahreppi um nýjan göngu- og hjólastíg sem fyrirhugaður er í Hörgársveit. „Landsnet mun leggja Dalvíkurlínu 2 í jörð og í tengslum við þá vinnu verður gerður vinnuslóði fyrir vinnuvélar. Sveitarfélagið mun erfa þennan vinnuslóða og nota hann sem grunn til uppbyggingar á göngu- og hjólastíg. Langleiðina getum við verið samferða vinnuslóða Landsnets en á nokkrum stöðum skilja þó leiðir og aðrir heppilegri möguleikar verða valdir,“ segir Sigríður.

Fyrsti áfangi hjóla- og göngustígsins milli Akureyrar og Þelamerkur verður vestan við þjóðveg 1 – hinum megin vegar á myndinni –  norður fyrir afleggjarann við Hlíðarbæ, þaðan sem m.a. er ekið niður að Skjaldarvík og að Gásum.

Eyjafjörður að verða mjög hjólavænn

Fleiri sveitarfélög við Eyjafjörð hafa einnig verið að leggja áherslu á göngu- og hjólastíga svo íbúar við fjörðinn hafa um nægar leiðir að velja í framtíðinni. Þannig hefur Svalbarðsstrandarhreppur verið að útbúa stíg frá Skógarböðunum og að Vaðlaheiðargöngum en fyrirhugað er að sá stígur muni í framtíðinni ná lengra út eftir firðinum. Sex ár eru síðan göngu- og hjólastígur var lagður milli Hrafnagils og Akureyrar og hefur hann verið mjög vinsæll. Þá stendur til að leggja göngu- og hjólastíg frá Akureyri og yfir Leirurnar, samhliða þjóðvegi 1. „Þessir stígar gefa fólki aukna valmöguleika á fararskjótum, bílinn þarf ekki alltaf að vera fyrsta val. Svo er þetta líka öryggisatriði því með því að beina gangandi og hjólandi vegfarendum af þjóðveginum eykst umferðaröryggið fyrir alla, bæði keyrandi, gangandi og hjólandi,“ segir Sigríður.

Byrjað á Dalvíkurlínu 2 í sumar

Fyrirhuguð Dalvíkurlína 2 verður lögð í áföngum en Landsnet býður verkið út í tveimur hlutum. Að sögn Sigríðar stefnir Landsnet á að því að byrja á framkvæmdum vegna lagningar Dalvíkurlínu 2 í sumar og það klárað árið 2024, ef allt gengur vel. Ef það þarf að laga eitthvað eins og vegna sigs eða álíka lagfæringar er árið 2025 hugsað fyrir það.

Horft til norðurs frá afleggjaranum við Hlíðarbæ. Þarna mun stígurinn þvera þjóðveginn um undirgöng og liggur þaðan austan megin vegar – hægra megin á myndinni – yfir Moldhaugnahálsinn sem sést í fjarska. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fyrsti áfangi hjóla- og göngustígsins verður á milli Akureyrar og Laugalands á Þelamörk og mun hann liggja frá Akureyri vestan við þjóðveg 1. Fyrir norðan afleggjarann að Hlíðarbæ er gert ráð fyrir að stígurinn þveri þjóðveginn um undirgöng. Síðan fylgir stígurinn vegstæði þjóðvegarins yfir Moldhaugnaháls. Þá mun hann þvera Ólafsfjarðarveg og hlykkjast í gegnum skógræktarsvæðið í landi Grjótgarðs, að bökkum Hörgár og kemur inná Þelamörk fyrir neðan byggingarnar sem þar standa.

Hjólað með útsýni á haf út

„Annar áfangi stígsins liggur frá þjóðvegi eitt að Bakkavegi, norðan við Hof. Stefnt er að því að fara niður á gömlu brúnna yfir Hörgá. Leiðin liggur austan við Ólafsfjarðarveg. Stígurinn liggur síðan austan megin við veginn norður fyrir afleggjarann svo hægt sé að fara niður á Bakkaveginn. Stígurinn mun í framtíðinni liggja austan við Bakkaveginn svo fólk hafi útsýni yfir hafið á leið sinni til Hjalteyrar. Loks er stefnt að því að stígurinn fari í framtíðinni frá Hjalteyri að sveitarfélagsmörkum,“ segir Sigríður en bendir jafnframt á að enn er eftir að taka afstöðu til athugasemda sem komu inn eftir að aðalskipulagsbreytingin fór í auglýsingu, svo framantalin lýsing getur eitthvað breyst.

Sigríður Kristjánsdóttir, skipulagsfulltrúi í Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppi og Grýtubakkahreppi segir nýja göngu- og hjólastíginn spennandi samfélagsslegt verkefni sem auka mun lýðheilsu.

Hjólamöguleikum við Eyjafjörð fjölgar stöðugt. Þessi göngu- og hjólastígur liggur frá Skógarböðunum meðfram þjóðvegi 1 og að Vaðlaheiðargöngum.