Fara í efni
Fréttir

Göngin ekki hættulegri staður en flestir aðrir

Ekki er ástæða til þess að ætla að Múlagöng séu hættulegri staður til aksturs en flestir aðrir staðir á vegakerfi landsins. Þetta segir Berþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, í skriflegu svari til Akureyri.net í morgun, og vísar til áhættumats sem fram fór fyrir Múlagöng 2014.

„Þetta breytir því þó ekki að full ástæða er til þess að huga að endurbótum. Sú umræða verður þó alltaf að vera á víðara plani þar sem afkastageta ganganna er komin að þolmörkum sérstaklega á sumrin og umræða nú þegar uppi um endurnýjun ganganna og þá hvernig best verður að henni staðið,“ segir Bergþóra og minnir á svar sem barst frá Vegagerðinni í gær, þess efnis að áætlað sé að endurnýjun á klæðningu í göngunum kosti einn og hálfan milljarð króna, og það útheimti sérstaka fjárveitingu á samgönguáætlun.

Akureyri.net spurði forstjórann um endurbætur á göngunum, í framhaldi þess að slökkviliðsstjórinn í Fjallabyggð sagði um helgina að göngin væru dauðagildra. Klæðning á veggjum væri mjög eldfim.

Uppsöfnuð viðhaldsþörf nemur 85 milljörðum

„Almennt er það svo að vegakerfið er samsett úr bútum sem hver og einn ber merki þess tíma þegar bygging fór fram. Þannig erum við með 13.000 km af vegum og 1.200 brýr þar sem einungis lítill hluti uppfyllir þær kröfur sem við gerum í dag til nýframkvæmda við þær aðstæður sem eru í dag. Við erum hér að tala um burðarlag í vegum, mjóa vegi, gerðir vegbúnaðar svo sem vegriða, blindbeygjur, krappar beygjur og halla í brekkum. Við nýframkvæmdir er tekið mið af bestu aðstæðum og mestu kröfum sem þekkjast í okkar samtíma eins og var þegar hvert þessara mannvirkja var byggt á sínum tíma. Viðhaldsfé Vegagerðarinnar er forgangsraðað eftir viðurkenndum aðferðum viðhaldsstjórnunar til þess að viðhalda þessu vegakerfi á sem bestan hátt. Ákveðnum hluta þessa fjár er varið beint í aðgerðir til þess að auka öryggi á vegakerfinu þannig að á hverju ári er farið í aðgerðir samkvæmt forgangsröðun sem bæta öryggi á eldra vegakerfi – meginhluti fjárins fer í að viðhalda því vegakerfi sem er til staðar. Fjármunir til viðhalds hafa árum saman verið allt að því helmingi of litlir miðað við þá þörf sem til staðar er. Þó þetta hafi nokkuð lagast á síðustu árum er uppsöfnuð viðhaldsþörf á vegakerfinu að mati Vegagerðarinnar 85 milljarðar króna,“ segir Bergþóra.

„Í ár fara fram viðgerðir á dúk í Múlagöngum auk annars reglubundins viðhalds. Öryggisbúnaður í göngunum hefur verið aukinn undanfarin ár m.a. með kantlýsingu, blásurum og einstefnulýsingu með ljósum fyrir stóra bíla með myndavélum og lokunarslám. Sólarhringsvöktun er á öllum göngum en 2 starfsmenn fylgjast með öllu sem gerist í öllum göngum í gegnum öryggiskerfi jarðganga og bregðast við ef upp kemur eitthvað atvik í eða við göng t.d. með lokun ganganna,“ segir í svari forstjórans.