Fara í efni
Fréttir

Góð spá: þurrt og hlýtt fram í miðja viku

Góðu veðri er spáð næstu daga. „Það verða nokkuð eindregin vetrarhlýindi og þurrt veður fram í vikuna. Mjög stöðugt veður,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur við Akureyri.net. Eftir snjókomu í síðustu viku hefur hlýnað mjög, mikið tekið upp og klaki, sem gerðum mörgum lífið leitt, er á miklu undanhaldi. Ekkert lát verður á því næstu daga. 
 
Einar rekur Veðurvaktina og fjallar ítarlega dag hvern um veður og loftslag á vefnum blika.is.
 
„Upp úr miðri viku fer hann svo að halla sér til norðaustanáttar og kólnar með éljum undir helgi,“ sagði Einar og kvaddi áhugamenn um norðlenskan jólasnjó með þessum orðum:  „Hvort sá snjór haldi fram að jólum eða ekki, kemur í ljós í fyllingu tímans!“ Sem sagt, vandi er um slíkt að spá, eins og segir í kvæðinu góða ...