Fara í efni
Fréttir

Glæsilegur sigur í Evrópuleiknum!

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs á æfingu í Istog fyrir leikinn í dag. Ljósmynd: Elvar Jónsteinsson.

Íslandsmeistarar KA/Þórs í handbolta sigruðu Kósóvómeistarana KHF Istogu 26:22 í dag, í fyrri leik liðannna í Evrópubikarkeppninni í borginni Istog. Þetta var frumraun KA/Þórs í Evrópukeppni og sannarlega ekki hægt að fara fram á betri byrjun. Liðin mætast aftur á morgun og telst það heimaleikur Akureyrarliðsins.

Örlítill skrekkur virtist í leikmönnum KA/Þórs fyrstu mínúturnar og heimamenn komust í 2:0 og 4:1. Stelpurnar okkar komust svo yfir í fyrsta skipti 5:4 og leikurinn var í járnum þar til flautað var til hálfleiks. Lið KHF var þá einu marki yfir, 12:11.

KA/Þór komst yfir á ný þegar liðlega sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, 15:14, og heimaliðið náði aldrei forystu eftir það. Jafnt var nokkrum sinnum en mestur varð munurinn í lokin.

Mörk KA/Þórs í dag: Unnur Ómarsdóttir 8, Aldís Ásta Heimisdóttir 5, Sofie Söberg Larsen 4, Martha Hermannsdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir 2 hvor, Ásdís Guðmundsdóttir og Anna Þyrí Halldórsdóttir 1 mark hvor.

Matea Lonac varði 14 skot í leiknum.

Emsa Muratovic var illviðráðanleg í liði KHF og gerði 12 mörk.