Fara í efni
Fréttir

Gjörbreytt Þórslið hefur leik í kvöld

Emma Karólína Snæbjarnardóttir er 17 ára bakvörður og nú orðin fyrirliði Þórsliðsins. Hér er hún í leik gegn Val í Bónusdeildinni á síðasta tímabili. Hún spilaði 26 leiki með Þórsliðinu þar sem hún sýndi og sannaði að hún á fullt erindi í Bónusdeildina og verður eflaust lykilleikmaður í Þórsliðinu í 1. deildinni í vetur. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Kvennalið Þórs í körfuknattleik hefur leik í 1. deild Íslandsmótsins í kvöld þegar B-lið Njarðvíkur kemur í heimsókn í Íþróttahöllina á Akureyri. Leikurinn hefst kl. 19:15. Þórsliðið er nær alveg nýtt frá síðasta tímabili, nýir þjálfarar og meirihluti leikmanna. 

Nú er loksins komið að fyrsta leik, mætti segja, því nú þegar hafa flest liðin spilað tvo leiki. Fyrsta leik Þórs var frestað þar sem hann átti að vera í Höllinni sömu helgi og Þór hélt Pollamót í körfubolta og síðan féll annar leikur liðsins niður því þá átti Þór samkvæmt leikjadagskránni að mæta liði sem dró sig úr keppni skömmu fyrir mót. 

Lidia Mirchandani er nýr þjálfari kvennaliðs Þórs. Hún hefur mikla reynslu af körfuboltanum hér á landi, bæði sem leikmaður og þjálfari.

Lidia Mirchandani tók við sem aðalþjálfari kvennaliðs Þórs í sumar, en hún er einnig aðstoðarþjálfari karlaliðsins og í ýmsum verkefnum varðandi yngriflokkastarfið. Aðstoðarþjálfari kvennaliðsins er Luke Moyer, sem spilar með karlaliði Þórs. Akureyri.net heyrði í nýjum þjálfara liðsins til að taka stöðuna og forvitnast um liðið, markmiðin og tímabilið fram undan.

„Undirbúningstímabilið hefur verið langt því við höfum ekki náð að spila neina æfingaleiki af ýmsum ástæðum,“ segir Lidia, spurð um stöðu mála hjá liðinu. „Allt liðið er spennt að hefja loksins keppni þar sem við erum að byrja seint í samanburði við hin liðin.“

Mikil endurnýjun

Þórsliðið er nánast alveg nýtt frá síðasta tímabili, en þó kunnugleg nöfn í hópnum því auk tveggja sem halda áfram með liðinu frá því í vor snúa tvær, raunar þrjár, til baka eftir að hafa tekið sér frí frá boltanum. 

Einungis tvær af þeim sem spiluðu með liðinu í fyrra eru í leikmannahópnum núna, ef til vill rétt að segja bara ein því önnur þeirra, María Sól Helgadóttir, spilaði nánast ekkert með meistaraflokki í fyrravetur eftir að hafa fengið höfuðhögg í sínum fyrsta meistaraflokksleik í bikarkeppninni í fyrrahaust.

Emma Karólína fyrirliði

Emma Karólína Snæbjarnardóttir er því í raun sú eina sem er áfram í Þórsliðinu frá því í fyrravetur, af þeim sem spiluðu eitthvað að ráði, og fær væntanlega enn stærra hlutverk, meðal annars sem fyrirliði liðsins. Það verður spennandi að fylgjast með þessari ungu og bráðefnilegu körfuboltakonu takast á við stærra hlutverk í liðinu. Karen Lind Helgadóttir var með liðinu að hluta til á síðasta tímabili og er nú mætt aftur. Þá hafa Kristín María Snorradóttir og Vaka Bergrún Jónsdóttir tekið fram körfuboltaskóna að nýju eftir að hafa tekið sér frí frá boltanum, en báðar léku áður með Þór.

„Aðalmarkmið okkar er að fara eitt skref í einu, byggja upp nýtt verkefni án þess að gefa upp á bátinn að vera metnaðargjarnt lið og berjast fyrir því að vera á toppnum. Við erum með blandað lið reyndra leikmanna og yngri svo það ætti að vera góður liðsandi og liðið að geta vaxið saman sem hópur,“ segir Lidia Mirhandani þjálfari. 

Fjórar erlendar út, fjórar inn
 
Félagið hefur fengið til sín fjórar erlendar körfuboltakonur, frá Bandaríkjunum, Danmörku, Hollandi og Spáni. 
 
Chloe Wilson er bandarískur bakvörður sem kemur frá Delaware Blue Hens í bandaríska háskólaboltanum. Hún er nýliði í atvinnumennsku og segir Lidia hana metnaðargjarna og gefa liðinu mikla orku, hún geti hjálpað liðinu í mörgum mismunandi þáttum leiksins. 
 
Emilie Ravn er 25 ára bakvörður sem spilað hefur með yngri landsliðum Danmerkur. Hún spilaði með SISU í Dammörku á síðustu leiktíð og skoraði þar 13 stig að meðaltali í leik, tók þrjú fráköst og átti tvær stoðsendingar. „Hæfileikaríkur leikmaður með mikinn metnað til að bæta sig. Líkamlega sterkur leikmaður sem getur hjálpað liðinu á báðum endum vallarins.“
 
Chloe Wilson, Emilie Ravn, Iho Lopez og Yvette Adriaans, erlendu leikmennirnir í Þórsliðinu. 
Iho Lopez er 28 ára framherji frá Spáni, þar sem hún spilaði með Santfeliuenc, en hefur einnig leikið með nokkrum öðrum liðum á Spáni undanfarin ár. Hún á að baki leiki með yngri landsliðum Spánar. Hér er á ferðinni reyndur leikmaður sem hefur spilað í nokkrum löndum. „Hún færir liðinu þekkingu á leiknum, tekur til sín líkamlega í sókn og vörn,“ segir Lidia um landa sinn, Iho.
 
Yvette Adriaans er 28 ára hollenskur framherji, en hún lék síðast með írska liðinu Trinity Metors í Dublin. Hún hefur einnig spilað í Þýskalandi, Hollandi og hér á landi, spilaði fyrir Hamar/Þór í 1. deildinni 2022-23. Þar skoraði hún að meðaltali 16 stig í leik, tók 11 fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Hún er að jafna sig af meiðslum. „Hún er duglegur leikmaður og vill sýna góða frammistöðu á leiktíðinni. Við búumst við miklu af henni og hún verður lykilmaður í þessari deild.“
 
Ertu tilbúin í næsta skref?
 
Það vakti athygli þegar félagið hóf að auglýsa á samfélagsmiðlum eftir öflugum og efnilegum leikmönnum og spurt var: Ertu tilbúin í næsta skref? Lofað var „raunverulegu tækifæri til að spila og vaxa,“ eins og það var orðað í auglýsingum. 
 
Emma Karólína Snæbjarnardóttir fyrirliði, Hjörtfríður Óðinsdóttir, Karen Lind Helgadóttir, Kristín María Snorradóttir, María Sól Helgadóttir og Sigurveig Eva Jónasdóttir. 
Sigurlaug Eva Jónasdóttir, 16 ára körfuboltakona úr Keflavík, svaraði kallinu. Hún var í leikmannahópi Keflavíkur í Bónusdeildinni á síðasta tímabili og kom við sögu í einum leik, auk þess að spila 17 leiki með B-liði Keflavíkur í 1. deildinni. „Hún er ung og hörkuduglegur leikmaður. Hún tók þessari áskorun strax frá fyrstu mínútu. Hún átti gott tímabil í fyrra með mikilvægt hlutverk í Keflavíkurliðinu. Núna stendur hún frammi fyrir nýju hlutverki og nýrri áskorun sem leikmaður, þar sem hún mun vaxa yfir tímabilið,“ segir Lidia um þennan unga Keflvíking sem skellti sér norður. 
 
Hjörtfríður Óðinsdóttir er 18 ára bakvörður sem kom til Þórs frá Grindavík þar sem hún spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki 2021-22. Hjörtfríður á ættir að rekja til Akureyrar, dóttir Óðins Árnasonar, fyrrum leikmanns knattspyrnuliðs Þórs, og Ernu Rúnar Magnúsdóttur. Erna Rún spilaði fyrir Þór í 1. deildinni 2015-2018. Þá er afi hennar, Árni Óðinsson, fyrrverandi formaður Þórs, með meiru.
 
Ellefu farnar eða hættar
 

Þórsliðið var fámennt á síðasta tímabili eins og oft kom fram, en kjarni liðsins er farinn annað. Eva Wium Elíasdóttir fór í Stjörnuna, Maddie Sutton fór til Ástralíu strax að loknu tímabilinu, samdi síðan við Stjörnuna, en fór þaðan í Tindastól. Amandine Toi fór í Hauka, Esther Fokke og Natalia Lalic farnar til síns heima. Hrefna Ottósdóttir var eiginlega hætt fyrir síðasta tímabil, en snéri aftur að hluta, spilaði 13 leiki í Bónusdeildinni í fyrra, og lætur þar við sitja. Katrín Eva Óladóttir fór í KV. Hanna Gróa Halldórsdóttir kom frá Keflavík og spilaði fyrir Þór í fyrra, en fór aftur suður og spilar nú með Val. Adda Sigríður Ásmundsdóttir kom frá Snæfelli og hefur snúið aftur á heimaslóðir í Stykkishólmi. Þá er Valborg Elva Bragadóttir hætt, en hún kom við sögu í fjórum leikjum liðsins í fyrra.

Heiða Hlín Björnsdóttir var aðstoðarþjálfari á síðasta og hljóp í skarðið sem leikmaður í nokkrum leikjum á síðasta tímabili, en var þó eiginlega búin að leggja skóna á hilluna.

Leikmenn Þórs 2025-26:
 
  • Chloe Wilson frá Delaware Blue Hens í Bandaríkjunum.
  • Emilie Ravn frá SISU í Danmörku.
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir fyrirliði
  • Hjörtfríður Óðinsdóttir frá Grindavík.
  • Iho Lopez frá Santfeliuenc á Spáni.
  • Karen Lind Helgadóttir
  • Kristín María Snorradóttir
  • María Sól Helgadóttir
  • Sigurlaug Eva Jónasdóttir frá Keflavík
  • Vaka Bergrún Jónsdóttir
  • Yvette Adriaans frá Trinity Metors á Írlandi.