Fara í efni
Fréttir

Gjaldskrá vatnsveitu hækkar 1. ágúst

Norðurorka hefur tilkynnt um breytingu á verðskrá vatns- og fráveitu sem taka mun gildi 1. ágúst, með hækkun upp á 4,9%. Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi B-lista, segir að eðlilegast hefði verið að gjaldskrárbreyting tæki gildi um áramót. 
 
Erindi frá Norðurorku þar sem tilkynnt var um breytinguna var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Akureyrarbæjar í gærmorgun. Meirihluti bæjarráðs samþykkti hækkun á gjaldskrá vatnsveitu og staðfesti framlagðar gjaldskrár frá Norðurorku með gildistíma frá 1. ágúst. Sviðsstjóra fjársýslusviðs var falið að útfæra fyrirkomulag álagningarinnar með hliðsjón af því að gjaldksrá Norðurorku sé endurskoðuð ársfjórðungslega. 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi B-lista, lagði fram bókun á fundi bæjarráðs þar sem hún gagnrýnir þá ákvörðun að gjaldskrárhækkunin taki gildi frá og með 1. ágúst, en ekki næstu áramótum. Bókun Sunnu Hlínar hljóðar svo: 

Í byrjun árs fá fasteignaeigendur á Akureyri álagningarseðil fyrir fasteignagjöld ársins sem greiðast á átta gjalddögum yfir árið og geta þá skipulagt fjármál sín út frá ákveðnum forsendum. Nú eru tveir gjalddagar eftir og stjórn Norðurorku hefur ákveðið að hækka gjaldskrá fráveitu og vatnsgjald um 4.9% frá 1. ágúst í stað þess að hækka gjaldskrá um áramótin eins og hefur tíðkast. Við þetta skapast óþarfa vinna á starfsfólk Akureyrarbæjar og okkar þjónustuaðila sem hefur nú þegar sent út álagningarseðil fyrir árið og það dregur úr fyrirsjáanleika fyrir fasteignaeigendur. Fyrir þessu hefði átt að hugsa og eiga samtal við Akureyrarbæ um fyrirkomulagið áður en stjórn Norðurorku samþykkti í október 2022 að nú eigi að endurskoða gjaldskrá Norðurorku ársfjórðungslega.