Fara í efni
Fréttir

Giljahverfi: Hvað er gott – hvað mætti betur fara?

Akureyrarbær boðar til hverfisfundar í Giljaskóla með íbúum hverfisins, bæjarstjóra og bæjarfulltrúum kl. 17 fimmtudaginn 8. maí. 

Lagt er upp með tvær meginspurningar, að því er segir á vef bæjarins.

  • 1. Hvað er gott við hverfið þitt?
  • 2. Hvað mætti betur fara?

Fundurinn hefst með því að Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, flytur stutt ávarp „en síðan brjóta íbúar Giljahverfis spurningarnar tvær hér að ofan til mergjar.“

Bæjarfulltrúar verða í salnum og hafa það hlutverk að skrifa niður þær hugmyndir, umkvartanir, lof og last, sem fram koma í umræðuhópum íbúanna. „Megináhersla verður lögð á að samtalið fari fram á forsendum bæjarbúa.“

Fundir af þessu tagi hafa verið haldnir áður og fleiri virðast í farvatninu því í tilkynningunni á vef bæjarins segir að „niðurstöðum fundanna, ábendingum og hugmyndum, verður komið í réttan farveg og á framfæri við stjórnendur sveitarfélagsins og pólitískt kjörna fulltrúa til frekari úrvinnslu. Á hverjum fundi verður einblínt á nærumhverfið með íbúum hvers hverfis en að sjálfsögðu eru öll velkomin á alla fundina.“

Fólk er hvatt til þess að mæta til fundar og taka þátt í umræðunni um hverfið sitt.

Fram kemur að boðið verði upp á grillaðar pylsur að loknum fundi.