Fara í efni
Fréttir

Gervigras á velli KA fyrir 180 milljónir

KA-svæðið. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Gengið verður til samninga við Metatron ehf. um kaup á gervigrasi, LigaTurf RS Pro II CP 240 18/4, á nýjan knattspyrnuvöll KA á svæði félagsins í Lundahverfi, aðal keppnisvöllinn, og sama efni verður sett á völlinn sunnan við KA-heimilið. Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrar samþykkti þetta á síðasta fundi. Heildarkostnaður við gervigras og búnað á báða vellina er samkvæmt útboði 182,4 milljónir króna, að því er fram kemur í fundargerð ráðsins.

Á fundinum kom fram að umhverfis- og mannvirkjaráð telur nauðsynlegt að gervigras í Boganum verði endurnýjað á árinu 2023 og vísar því til fjárhagsáætlunargerðar haustið 2022. Stefnt er að því að samskonar gras verði sett í Bogann og á KA-vellina, eftir því sem Akureyri.net kemst næst.

Þá var samþykkt á fundinum að kaupa vél frá SMG í Þýskalandi með búnaði fyrir umhirðu á öllum gervigrasvöllum Akureyrarbæjar. Vélin kostar 9 milljónir króna.