Fara í efni
Fréttir

Geislamælir var geymdur í hólknum

Hólkurinn umtalaði er sá litli grái á borðinu fyrir miðri mynd. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.
Hólkurinn umtalaði er sá litli grái á borðinu fyrir miðri mynd. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Tæki sem notað var til að mæla geislavirkni í matvælum var á sínum tíma geymt í hólkinum torkennilega sem fannst í kjallara Háskólans á Akureyri í vikunni, eftir því sem Akureyri.net kemst næst. Í fyrstu var óttast, vegna þess að starfsmaður sem snerti hólkinn veiktist hastarlega, að mögulega leyndust í honum geislavirk efni en svo reyndist ekki vera, sem betur fer.

Starfsmenn skólans komu af fjöllum í gær þegar hólkurinn fannst; enginn vissi hvað þetta var eða til hvers það hafði verið notað. Geislavarnir ríkisins sendu menn norður til að rannsaka hólkinn og vinna þeirra leiddi í ljós að engin hætta var á ferðum.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, sagði Akureyri.net í morgun að komið hefði í ljós að fyrrverandi starfsmaður skólans sem löngu er farinn á eftirlaun, kannaðist við hólkinn. Þá hafi beiðni  vegna hólksins fundist í skjalasafni Geislavarna ríkisins. Stofnunin sýnir því áhuga að fá að eiga gripinn því hann geti nýst við vinnu starfsmanna þar á bæ og segir Eyjólfur allar líkur á að skólinn afhendi stofnuninni  hólkinn.

Fumlaus vinnubrögð

Starfsmaðurinn sem lenti í einangrun á Sjúkrahúsinu á Akureyri í gær, Jóhann Jónsson, segir við Akureyri.net að upplifunin hafi verið sérstök. Honum var mjög létt þegar hið sanna kom í ljós en líkast til er um bráðaofnæmi að ræða, eins og fram kom í frétt Akureyri.net í morgun. Jóhann lýsti mikilli ánægju með störf allra sem að málinu komu, ekki síst starfsmanna Sjúkrahússins á Akureyri. Rektor tekur í sama streng,  og lýsir sérstakri ánægju með fumlaus vinnubrögð starfsmanna Geislavarna ríkisins.

Smellið hér til að lesa frétt Akureyri.net í morgun