Fara í efni
Fréttir

Geir Kristinn orðinn ræðismaður Danmerkur

Til lykke! Hjónin Stefanía G. Sigmundsdóttir og Helgi Jóhannesson, fráfarandi ræðismaður, Kirstein Geelan sendiherra Dana á Íslandi, Geir Kristinn Aðalsteinsson og eiginkona hans, Linda Guðmundsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Geir Kristinn Aðalsteinsson er nýr ræðismaður Danmerkur á Norðurlandi. Hann tók formlega við af Helga Jóhannessyni, sem sinnt hefur embættinu í 22 ár, í samkvæmi sem danska sendiráðið hélt í menningarhúsinu Hofi í gær. Geir Kristinn starfar sem mannauðsstjóri Hölds.

Ræðismenn Danmerkur eru skipaðir af danska sendiráðinu í Reykjavík til að gæta hagsmuna Danmerkur, eins og viðskipta-, menningar- og hagsmunatengsla. Ræðismenn Danmerkur á Íslandi eru þrír, staðsettir á Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði.

Þjónusta þeirra getur falist í aðstoð við borgaraþjónustu, útgáfu ferðaskilríkja, við kosningar, í kreppuástandi o.s.frv., sem og með miðlun menningar- og viðskiptasamskipta.

„Það er mér heiður að taka við af Helga Jóhannessyni sem ræðismaður Danmerkur á Norðurlandi. Við fjölskyldan áttum dásamlegan tíma í landinu á námsárum okkar og getum vonandi með þessu ræktað tengsl okkar við landið en betur en fram til þessa,“ sagði Geir Kristinn við Akureyri.net.

Þrír kollegar á Norðurlandi í samkvæminu í gær! Ólafur Jónsson, ræðismaður Noregs, Eva Charlotte Halapi ræðismaður Svíþjóðar og Geir Kristinn Aðalsteinsson, nýr ræðismaður Danmerkur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson