Fara í efni
Fréttir

Geðlest Geðhjálpar verður í Hofi í kvöld

Geðlest Geðhjálpar verður í menningarhúsinu Hofi í kvöld þar sem öllum er boðið til samtals um geðrækt og mikilvægi hennar út lífið og eiga með okkur góða stund sem lýkur með stuttum tónleikum þeirra félaga Emmsjé Gauta og Þormóðs,“ eins og segir í tilkynningu frá Geðhjálp. 

Dagskráin hefst klukkan 20.00 á stuttri kynningu á Geðhjálp og starfi samtakanna. Eftir það verður farið yfir mikilvægi reglulegrar geðræktar út lífið og ýmsar leiðir ræddar. Þá mun einstaklingur segja frá sinni reynslu af geðrænum áskorunum og hvernig bata var náð og hvaða verkfæri hafa reynst best. Eftir reynslusöguna verða umræður og í lokin stíga þeir félagar Emmsjé Gauti og Þormóður á svið og leika nokkur lög, sem fyrr segir, „til að árétta að geðrækt er líka gleði og skemmtun. Aðgangur er ókeypis og eru öll velkomin.“

Fulltrúar landssamtakanna Geðhjálpar eru á ferð um landið þessa dagana í tilefni af Gulum september, forvarnarátaki sem er ætlað að auka meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna, og bjóða upp á samtal um geðrækt og geðheilsu í bland við tónlist og gleði.  Geðlestin er heiti verkefnisins, sem byrjaði með áherslu á börn og ungmenni, en þróaðist á síðasta ári í verkefni þar sem fundað var með sveitarstjórnum, félags- og skólamálayfirvöldum og lögreglu annars vegar og almenningi hins vegar.