Fara í efni
Fréttir

Gásakaupstaður heyrir sögunni til

Hart var barist á Miðaldadögum 2010. Enginn féll þó í valinn, eins og algengt var á miðöldum... Ljós…
Hart var barist á Miðaldadögum 2010. Enginn féll þó í valinn, eins og algengt var á miðöldum... Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Gásakaupstaður í Eyjafirði heyrir sögunni til. Þar var helsti verslunarstaður Norðurlands á miðöldum og uppi voru hugmyndir um að þar yrði byggður upp eftirsóttur ferðamannastaður sem byggði á sögunni og niðurstöðum fornleifarannsókna. Allt frá árinu 2003 hefur sjálfseignarstofnunin Gásakaupstaður haldið Miðaldadaga á Gásum, svo verður ekki í ár en vonir standa þó til þess að sú skemmtilega hátíð verði endurvakin með samvinnu sveitarfélaganna sem að verkefninu komu.

Stjórnarformaður sjálfseignarstofnunarinnar Gásakaupstaðar, sem nú verður slitið, hefur komið að verkefninu frá upphafi og þykir niðurstaðan afar sorgleg.

„Fjárhagslegt bolmagn stofnunarinnar er of lítið og eftir að lang stærstu eigendurnir, Akureyrarbær og Hörgársveit, treystu sér ekki til að halda áfram að setja fé í verkefnið er ekki annað að gera en fara þá leið að slíta stofnuninni í von um þó að fjöregg þess Miðaldadagar geti lifað áfram og dafnað. Eigendurnir eru allir ótrúlega velviljaðir verkefninu en peningar eru því miður af skornum skammti,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir, stjórnarformaður við Akureyri.net.

Hvergi jafn miklar sýnilegar minjar

Fornleifarannsóknir hófust á Gásum í Hörgársveit, nokkrum kílómetrum norðan Akureyrar, upp úr aldamótum og Kristín Sóley segir að hvergi séu jafn miklar sýnilegar minjar um verslun frá þessum tíma.

„Það var fyrir aldamót sem Akureyrarbær óskaði eftir því við Minjasafnið á Akureyri að kannað yrði hvort og þá hvað væri mögulega hægt að gera á Gásum. Rannsóknir hófust og í einni af skýrslunum var varpað fram hugmynd um Gásir sem ferðamannastað,“ segir Kristín Sóley. „Minjasafnið hefur staðið ótrúlega vel að þessu verkefni og sinnt því af mikilli alúð.“

Allt breyttist eftir hrun

Skrifað var undir samning um sjálfseignarstofnunina Gásakaupstað 2007 og hún varð að veruleika 2008. „Akureyrarbær ætlaði að setja töluvert fé í uppbyggingu og rekstur og starfsmaður átti að vera í fullu starfi allt árið; einn starfsmaður getur gert ótrúlega mikið í svona verkefni. Í hruninu breyttist þetta allt snarlega og samningnum var rift. Þetta er því í annað skipti í dag þar sem erfiðar efnahagslegar aðstæður koma við verkefnið. “ Eigendur hafa því tekið þá ákvörðun að skynsamlegast sé því að leggja stofnunina niður.

Kristín Sóley fluttist til Akureyrar 2002 og tengdist Gásaverkefninu strax. Hún hefur verið verkefnastjóri og framkvæmdastjóri, var upphafsmaður Miðaldadaga og er stjórnarformaður sjálfseignarstofnunarinnar í dag. Stjórnarmenn ákváðu á sínum tíma að þiggja ekki laun svo allt fé sem væri fyrir hendi rynni beint í verkefnið, aðallega í Miðaldadaga enda hafa þeir verið eina starfsemi stofnunarinnar síðustu ár. „Þeir hafa sannað sig og eru góð leið til að koma á framfæri helstu niðurstöðum fornleifarannsókna á svæðinu, með lifandi hætti. Staðurinn er einnig einstakur þar sem við erum með verslunarstaðinn sjálfan í túnfætinum. Á Miðaldadögum hefur verið boðið uppá leiðsögn um gamla verslunarstaðinn þar sem fornleifarnar eru.“

Verkþekkingin glatist ekki

Kristín Sóley vonar að í framtíðinni verði hugmyndir um Gásir sem ferðamannastað að veruleika.

„Öll gögn eru til; viðskipta- og verkáætlanir um uppbygginu ferðamannastaðar á Gásum eru tilbúnar, þarna er verið að vinna með friðlýstar minjar svo ekki er hægt að gera hvað sem er á svæðinu, en ég vona að sveitarstjórnir vilji fara af stað aftur seinna, eða einhverjir frumkvöðlar í ferðaþjónustu.“

Á þeim tíma sem Miðaldadagar hafa verið haldnir hefur fjöldinn allur af handverksfólki sérhæft sig í handverki miðalda og miðlað því með ólíkum hætti til gesta á Miðaldadögum. Kristín Sóley vonar að sú mikla verkþekking sem menn hafa aflað sér glatist ekki. „Það voru um 80 til 100 sjálfboðaliðar, handverksfólk, sem tók þátt í að byggja upp Miðaldadaga með fjölbreyttri dagskrá sem byggði á niðurstöðum rannsókna og með því að prófa sig áfram í handverksaðferðum frá miðöldum. Auk þess sem hópurinn tengdist skandinavísku tengslaneti.“

Miðaldadagar löðuðu að sér fjölda gesta en um 2000 gestir sóttu staðinn heim þessa þriðju helgi í júlí ár hvert. „Það er von stjórnar og Gásverja að Miðaldadagar, fjöregg stofnunarinnar, lifi áfram sem sjálfstætt verkefni - viðburður - þrátt fyrir að stofnuninni sjálfri verði slitið og starfsemi hennar lögð niður,“ segir Kristín Sóley.

  • Neðri myndin: Fornleifauppgröftur á Gásum sumarið 2002. Maður við gröft, en að baki honum standa, frá vinstri: Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, Kristín Sóley Björnsdóttir, verkefnisstjóri hjá Ferðamálasetri Íslands, Guðrún María Kristinsdóttir, forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri og Orri Vésteinsson, forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.