Fara í efni
Fréttir

Garðurinn hans Gústa vígður – MYNDIR

Guðrún Gísladóttir, eiginkona Ágústs heitins, og tvö barna þeirra, Berglind Eva og Júlíus Orri. Ljós…
Guðrún Gísladóttir, eiginkona Ágústs heitins, og tvö barna þeirra, Berglind Eva og Júlíus Orri. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Garðurinn hans Gústa – „glæsilegasti útikörfuboltavöllur landsins“ – var formlega vígður og afhentur Akureyrarbæ til eignar og umsjónar í gærmorgun, eins og Akureyri.net greindi frá. Við sama tilefni var minnisvarði til heiðurs athafnamanninum og körfuknattleiksþjálfaranum Ágústi H. Guðmundssyni afhjúpaður, en hann lést á síðasta ári langt fyrir aldur fram.

Það var snemma á síðasta ári sem nokkrir vinir Ágústs heitins réðust í það verkefni að reisa veglegan útikörfuboltavöll við Íþróttahús Glerárskóla í minningu læriföður þeirra og vinar.

„Ágúst er sigursælasti körfuknattleiksþjálfari Þórs frá upphafi og markaði djúp spor í sögu íslensks körfuknattleiks. Hann stýrði jafnframt flestum æfingum og leikjum í Glerárskóla og því staðsetningin vel við hæfi,“ sagði einn úr hópnum, Guðmundur Ævar Oddsson, sem ávarpaði viðstadda í gær fyrir hönd hópsins. „Nafn vallarins – Garðurinn hans Gústa – er svo tilkomið vegna þess að Gústi var grjótharður Boston Celtics aðdáandi, en heimavöllur NBA liðsins er einmitt TD Garden og þar áður Boston Garden.“

Ævinlega þakklátir

Það voru Guðmundur Ævar, Böðvar Kristjánsson, Einar Örn Aðalsteinsson, Hrafn Jóhannesson og Óðinn Ásgeirsson sem unnu að verkefninu, allt gamlir lærisveinar Ágústs í körfuboltanum. „Þá hefur að öðrum ólöstuðum Björn Halldórs Sveinsson reynst okkur ómetanleg hjálparhella í þessu verkefni. Jafnframt hafa fjölmargir einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki lagt hönd á plóg við þetta sannkallaða samfélagsverkefni, að ógleymdum samstarfsaðila okkar, Akureyrarbæ. Án fórnfýsi og gjafmildi þessara aðila værum við ekki hér í dag. Fyrir það verðum við ævinlega þakklátir,“ sagði Guðmundur í gær.

„Þar sem Gústi okkar var stórhuga í öllu sem hann tók sér fyrir hendur kom ekkert annað til greina en að reisa eina útikörfuboltavöll landsins í fullri stærð, með áhorfendastúku og ýmsu sem aðrir vellir hérlendis hafa ekki. Fyrsta skóflustungan að þessum glæsilega velli var tekin 15. júlí á síðasta ári.“

Stórkostleg tilfinning

„Það er stórkostleg tilfinning að búið sé að opna Garðinn og við verðum ævinlega þakklát þessum strákum, bestu vinum hans, fyrir að taka af skarið og gera völlinn að veruleika. Þetta er dásamleg stund en tilfinningaþrungin,“ sagði Guðrún Gísladóttir, eiginkona Ágústs heitins, við Akureyri.net. 

Strákarnir, lærisveinar og vinir Ágústs tala ætíð um Garðinn sem glæsilegasta útikörfuboltavöll landsins, enda er hann sá eini í fullri stærð og státar jafnframt af áhorfendastúku og flóðlýsingu. „Þetta er akkúrat eins og við viljum minnast hans, á vellinum. Og mér finnst það táknrænt hvað svæðið er fallegt og öll umgjörðin; það sýnir hve allir voru hrifnir af honum og hve mikið hann gerði fyrir alla,“ sagði Guðrún.

Sonur þeirra hjóna, Júlíus Orri, sá stórefnilegi körfuboltamaður, tók í sama streng og móðir hans. „Það er ómetanlegt að þessi völlur sé orðinn að veruleika og sýnir hve traustir vinir strákarnir eru. Mér finnst þetta ótrúlega fallegt og mjög góð leið til að minnast pabba.“

Það voru Guðrún Gísladóttir, eiginkona Ágústs, og tvö barna þeirra, Júlíus Orri og Berglind Eva, sem afhjúpu minnisvarðann. Hrafn Jóhannesson og Óðinn Ásgeirsson eru með þeim á myndinni.

Völlurinn mikið notaður

Garðurinn hans Gústa var tekinn í notkun í nóvember síðastliðnum og hefur verið afar vel nýttur. „Fjöldi körfuknattleiksiðkenda sækir völlinn á hverjum degi og ríkir mikil ánægja með þennan fyrsta „alvöru“ útikörfuboltavöll norðan Glerár, vígi körfuboltans á Akureyri. Síðan völlurinn var tekinn í notkun er búið að reisa veglega þriggja hæða áhorfendastúku, setja upp ljósastaura, malbika og þökuleggja í kringum völlinn og reisa minnisvarða, svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Guðmundur Oddur í gær.

Aðstandendur Garðsins hans Gústa söfnuðu um 10 milljónum til verkefnisins auk afslátta, gjafa og sjálfboðavinnu, og Akureyrarbær lagði til það fé sem á vantaði. „Raunkostnaður við svona völl hleypur á fleiri tugum milljóna. Án gjafmildi og fórnfýsi einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja hefði Garðurinn hans Gústa ekki risið.“

Guðmundur ítrekaði að aðstandendur Garðsins væru Akureyrarbæ óendanlega þakklátir „og öllum þeim sem gefið hafa til verkefnisins með einum eða öðrum hætti og færum við þeim okkar allra bestu þakkir.“

Einar Örn Aðalsteinsson færði Ingu Dís Sigurðardóttur bæjarfulltrúa „boltavöldin“ þar sem engir lyklar eru að vellinum og hann alltaf opinn ...

... og Inga Dís færði svo Bjarka Ármanni Oddssyni og Ellert Erni Erlingssyni, starfsmönnum Akureyrar, boltann og þar með umsjón vallarins.

Júlíus Orri Ágústsson, Guðrún Gísladóttir og Berglind Eva Ágústsdóttir.