Gamla Vínbúðin föl fyrir 390 milljónir

Fasteignin Hólabraut 16 á Akureyri er nú komin á söluskrá fasteignasölunnar Kasa. Í húsnæðinu var ÁTVR með rekstur vínbúðar um áratugaskeið en eftir að verslunin var flutt í nýtt húsnæði á Norðurtorgi í mars sl. hefur húsið á Hólabraut staðið autt. Fasteignin er samtals ríflega 800 fermetrar að stærð og ásett verð er 390 milljónir króna.
Samkvæmt auglýsingunni skiptist eignin í tvennt. Annars vegar liðlega 660 fm verslunarhúsnæði, sem samanstendur af verslun, lager, skrifstofu og starfsmannaaðstöðu, og hins vegar 143 fm íbúð á efri hæð. Íbúðin er með sérinngangi og í henni eru m.a. þrjú svefnherbergi og tvö baðherbergi. Stór hellulögð verönd snýr til suður og vesturs.
Húsið stendur á 1720 fermetra lóð, sem er að hluta til eignarlóð. Akureyrarbær á 68,1% lóðarinnar á móti 31,9% eignarhluta fasteignarinnar. Húsið stendur autt og er tilbúið til afhendingar um leið og nýir kaupendur hafa gengið frá kaupsamningi. Ljóst er að stærð og staðsetning þessa fornfræga verslunarhúsnæðis býður upp á margvíslega möguleika og verður spennandi að sjá hvernig starfsemi mun leysa áfengissöluna af hólmi.