Fara í efni
Fréttir

Galið ef horft er til gamalla öryggisstaðla

Mikil umferð í Múlagöngum. Ljósmynd: Sigurður Ægisson.

Mörgum var brugðið þegar slökkviliðsstjórinn í Fjallabyggð sagði í samtali við Akureyri.net um helgina að Ólafsfjarðargöngin – Múlagöngin – væru dauðagildra. Tilefni viðtalsins var ástand öryggismála í kjölfar þess að heimatilbúin sprengja var sprengd í göngunum.

„Ég á dóttur í Menntaskólanum á Tröllaskaga og önnur er á leið þangað. Það er því ekkert sérstaklega góð tilfinning þegar slökkviliðsstjórinn lýsir göngunum sem dauðagildru,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), en Fjallabyggð er hluti samtakanna.

„Eftir að hafa séð þessar fréttir – og ef það er rétt sem hann segir, sem ég get auðvitað ekki annað en trúað – getur bara ekki annað verið en að brugðist verði hratt og örugglega við; að öryggi okkar hér á svæðinu verði tryggt og það hið fyrsta,“ segir Hilda Jana við Akureyri.net.

Hún segir málefni Múlaganga sem slíkra ekki hafa komið inn á borð stjórnar SSNE, en samtökin séu að vinna að eigin samgöngustefnu þar sem horft verði til öryggismála, innan svæðisins og milli svæða, m.a. til samgangna að vetri til, sem heldur betur tengist Fjallabyggð, eins og hún segir. „Við erum að fara yfir hvar þurfi að gera úrbætur með tilliti til almennings, ferðaþjónustu og annarrar atvinnustarfsemi, og það verður að segjast eins og er að samgöngur til og frá Fjallabyggð koma upp aftur og aftur og ekki að ástæðulausu.“

Umfjöllun Akureyri.net um málið í gær vakti mikla athygli, þar á meðal þær upplýsingar frá Vegagerðinni að göng séu byggð með hliðsjón af öryggisstöðlum sem í gildi eru hverju sinni, en ekki sé miðað við að þeir staðlar gildi afturvirkt. Þótt klæðning í Múlagöngum uppfylli til dæmis ekki nútíma kröfur liggi ekki ljóst fyrir að lagaleg skylda sé til þess að bæta úr – vegna staðla sem giltu 1990.

Hilda Jana er ein þeirra sem undrast þetta atriði: „Mér finnst mjög skrýtið að horft sé til þeirra öryggistaðla sem áttu við þegar göngin voru grafin. Þróun öryggismála hlýtur að vera þess eðlis að þau þurfi að endurnýja og endurbæta þegar fram líða stundir. Annað er hreinlega galið,“ segir hún.

Slökkviliðsstjóri: Göngin „dauðagildra“

Svör Vegagerðarinnar