Fara í efni
Fréttir

Gæðatími ómannglögga fólksins

Þeir eru einkennilegir tímar grímuskyldunnar á margan hátt. Sérstaklega finnst mér þó flókið að eiga svona erfitt með að þekkja fólk. Ég hef alltaf verið mjög mannglögg kona, stundum man ég vandræðalega vel eftir fólki sem hefur verið mér samferða í lífinu, jafnvel í mjög stuttan tíma. Ég hef því aldrei getað sett mig almennilega í spor þeirra fjölmörgu sem ég þekki sem ekki eru mannglögg. Hef blásið á það sem fyrirslátt um að nenna ekki að leggja smáatriði á minnið eða einfaldlega sem áhugaleysi fyrir öðru fólki. Fjölskylda og vinir hafa þó lagt sig í líma við að útskýra fyrir mér að þetta glöggleysi á fólk sé alls ekki valið og sum hafa reynt að koma sér upp alls konar kerfum til að reyna að muna betur eftir fólki og sýnast minna merkileg með sig, en fátt slíkt hefur virkað. Nú á tímum grímuskyldunnar rennur upp fyrir mér hvað þetta hlýtur að vera orkufrekt að þurfa að leggja mikið á sig til að þekkja fólk. Nú þegar við sjáum bara rétt efra andlitið á ég í mesta basli með að þekkja samborgara mína sem ég heilsa alla jafna og spjalla við. Andlitin meira og minna hulin og húfan tekur svo við rétt hinum megin við augum. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvernig ég þekki fólk, hef aldrei velt því sérstaklega fyrir mér enda hefur það verið frekar áreynslulaust í gegnum tíðina. Ég hef þó komist að því að það er varla á augunum sem ég þekki fólk miðað við hversu illa það gengur þessa dagana.

Nú reynir á að nýta aðra tækni til að þekkja þá sem framhjá mér ganga í búðinni og á öllum þessum stöðum þar sem grímuskylda ríkir. Varla getum við lagt allan fataskáp vina og kunningja á minnið, en gott er ef fólk er gjarnan í sömu yfirhöfninni og enn betra ef það hefur átt hana í nokkurn tíma svo hún sé orðin kunnugleg en það frekar langsótt að treysta á það, sérstaklega nú þegar vorar. Klippingin getur verið hjálpleg í þessu samhengi og agalegt ef fólk tekur upp á því að breyta um hárgreiðslu eða jafnvel hárlit í miðju kóvid og á tímum grímuskyldunnar. Auðvitað er þetta einhvers konar lúxusvandamál okkar mannglögga fólksins á þessum fordæmalausu tímum en ég er sannfærð um að ómannglögga fólkið hefur margt tekið grímuskyldunni fagnandi. Þvílíkur léttir sem það hlýtur að vera að þurfa ekki að verja orku í að þekkja fólk eða jafnvel heilsa ókunnungum, til móðga engan, þegar við erum öll hvort sem er óþekkjanleg.

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir er félagsfræðingur (og gullsmiður) og lektor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.