Fara í efni
Fréttir

Fyrsta skóflustunga að viðbyggingu

Um 70 manns voru viðstaddir skóflustunguna. Myndir af vef Eyjafjarðarsveitar.

Fyrsta skóflustungan að viðbyggingu við Hrafnagilsskóla var tekin í gær, fimmtíu árum eftir að fyrsta skóflustunga að skólahúsinu var tekin. Viðbyggingin verður um 1.900 fermetrar og í húsinu verður, þegar það verður fullbúið, leikskóli, grunnskóli, fjölnota salir, bókasafn, upplýsingaver, aðstaða til tónlistariðkunar og kennslu, félagsmiðstöð og líkamsræktaraðstaða.

Byggingin er hönnuð af OG Arkitektum og Verkís „eftir forskrift úr góðu samráði sveitarstjórnar og starfsmanna skólanna. Í undirbúningnum voru tvær leiðir skoðaðar, annarsvegar að byggja ofan á núverandi skóla og hinsvegar að byggja tengibyggingu. Að loknu samráðsferli var þó valið að fara bil beggja og úr varð sérlega skemmtileg blanda beggja leiða þar sem leikskóli rís á jarðhæð og starfsmannaálma á annarri hæð,“ segir í tilkynningu á vef sveitarfélagsins.

„Fram kom í máli oddvita sveitarstjórnar að um sé að ræða mjög stórt verkefni þegar horft er til stærðar sveitarfélagsins og er horft bæði til þess að bæta enn betur núverandi aðstöðu sem og að búa sig vel fyrir framtíðina. Fjölmörg skipulagsverkefni eru í gangi um þessar mundir í sveitarfélaginu og ef allt gengur þá verða allt að 400 íbúðareiningar tilbúnar á skipulagi á komandi árum en það er um það bil jafn mikið og er af íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu í dag.“

Skóflurnar voru sex og var þeim beitt fagmannlega af Ernu Káradóttur leikskólastjóra, Hrund Hlöðversdóttur grunnskólastjóra, Guðlaugi Viktorssyni skólastjóra Tónlistaskóla Eyjafjarðar, Sveinbjörgu Helgadóttur formanni félags eldri borgara, Ernu Lind Rögnvaldsdóttur forstöðumanni íþróttamiðstöðvar og Jóni Stefánssyni oddvita sveitarstjórnar.

 

Fremst á myndinni má sjá viðbygginguna sem hýsir leikskólann. Ofan á má síðan sjá starfsmanna- og stjórnunarálmu skólans, að því er segir á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar.