Fara í efni
Fréttir

Fyrsta barn ársins er Akureyringur

Fyrsta barn ársins hér á landi fæddist Akureyringunum Jóni Óskari Sigurðssyni og Tyler Sharpton aðfararnótt nýársdags. Drengurinn fæddist á Landspítalanum, vegna þess að hann kom í heiminn töluvert fyrir tímann. Settur dagur var 19. febrúar, en drengnum lá eitthvað á að hitta foreldra sína. Hann er við hestaheilsu þrátt fyrir að fæðast svo langt fyrir tímann, segir faðir hans, Jón Óskar.

„Þetta kom okkur svolítið á óvart. Hún missti vatnið um nóttina á annan í jólum,“ segir Jón. „Við fórum á Sjúkrahúsið hérna á Akureyri og vorum stuttu síðar komin upp í sjúkraflugvél suður.“ Þegar suður var komið tók við töluverð bið fyrir foreldrana verðandi. Fæðingardeildin á Akureyri tekur ekki á móti fyrirburum, en Jón Óskar viðurkennir að það hafi komið þeim svolítið á óvart.

„Við vorum á sjúkrahótelinu á Landspítalanum í viku,“ segir Jón. Biðin var töluvert löng og Jón segir að það hafi verið svolítið skrítið að eyða vikunni milli jóla og nýárs á sjúkrahóteli, að bíða eftir barninu sínu. „Þetta var erfið bið. Vissulega löng vika. Við vorum ekki mikið að hugsa um það hvort það væru jól eða eitthvað annað.“

Þegar árið var um það bil að kveðja, ákvað drengurinn litli að heilsa foreldrum sínum loksins. „Tíu mínútum fyrir miðnætti á gamlársdag vorum við komin á fæðingardeildina og nokkrum klukkutímum síðar var hann kominn í heiminn,“ segir Jón Óskar. Jón er frá Akureyri og Tyler er frá Bandaríkjunum og litla fjölskyldan er búsett á Akureyri.

Akureyri.net óskar fjölskyldunni til hamingju!