Fara í efni
Fréttir

Fundu vopn, fíkniefni og verðmætt þýfi

Nýliðin helgi var annasöm hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra en auk hefðbundinna verkefna fóru fram umfangsmiklar húsleitir og handtökur í tveimur aðskildum málum, þar sem m.a. var lagt hald á þýfi, fíkniefni, vopn og fjármuni.

Að því er segir á Facebook-síðu lögreglunnar barst tilkynning á fimmtudag um innbrot í byggingafyrirtæki, þar sem stolið hafði verið sérhæfðum tölvubúnaði, lyklum að ökutækjum og vinnutækjum, auk ýmissa verðmæta. Rannsókn lögreglu leiddi til handtöku fjögurra einstaklinga á Akureyri og eins á Raufarhöfn og eftir húsleitir á Raufarhöfn tókst að hafa uppi á þýfinu og koma því til réttra eigenda. Rannsókn þessa máls er langt komin.

Síðastliðið laugardagskvöld réðst lögregla síðan í húsleitir og handtökur á fjórum stöðum, í þeim tilgangi að hafa uppi á skotvopni sem grunur lék á að hefði verið notað við hótanir. Sex einstaklingar voru handteknir og lagt var hald á talsvert magn fíkniefna, fjármuna, eggvopna, skotvopna, skotfæra og meintan ávinning af brotastarfsemi. Fjórir sakborningar eru til rannsóknar vegna þessa máls, þar af eru tveir undir 18 ára aldri.

Þetta mál er áfram í rannsókn og í tengslum við rannsóknina óskar lögreglan eftir upplýsingum sem fólk kann að hafa um nýlegar hótanir með skotvopni. Hægt er að hringja í síma 112 og biðja um samband við lögregluna á Akureyri.