Fara í efni
Fréttir

Fundarform sem hentar afskaplega vel

Fundarform sem hentar afskaplega vel

Um 60 manns voru á rafrænum kynningarfundi bæjaryfirvalda á Akureyri síðdegis í gær, þegar mest var. Í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár, sem kynnt var á dögunum, er gert fyrir einum milljarði króna í halla á rekstri bæjarins á næsta ári, mun meira en nokkru sinni fyrr.

„Þetta var mjög góður fundur, ekkert eitt sérstakt mál sem brann á fólki en spurningar af margvíslegum toga. Skólamál, skipulagsmál, umferðahraði, ljósleiðartengingar, umhverfismál, raforkumál, lokun upplýsingamiðstöðvarinnar og fleiri,“ sagði Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, við Akureyri.net, og kvað fundinn afar vel heppnaðan. „Það er alveg ljóst að þetta er fundarform sem hentar mjög vel fyrir svona upplýsingafundi og verður klárlega meira um þetta í framtíðinni.“

Hann segir að þrátt fyrir erfiða stöðu hafi lítil sem engin gagnrýni komið fram á bæjaryfirvöld, heldur verið settar fram góðar spurningar og rafrænar umræður hefðu verið vel heppnaðar.

Fundarstjóri í gær var Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, Guðmundur Baldvin kynnti fjárhagsáætlunina og helstu áherslur og svo var opnað fyrir spurningar sem hann og aðrir formenn ráða svöruðu, auk forseta bæjarstjórnar og Ásthildar bæjarstjóra.