Fara í efni
Fréttir

„Frumkvöðlar að gera ótrúlega flotta hluti“

„Frumkvöðlar að gera ótrúlega flotta hluti“

Nýsköpunarhreyfingin Norðanátt stendur fyrir fjárfestahátíð á Siglufirði á morgun, fimmtudag, þar sem koma saman fjárfestar og frumkvöðlar. Þetta er fyrsta fjárfestahátíð sem haldin er utan höfuðborgarsvæðisins. Á hátíðinni kynna frumkvöðlar verkefni sín sem snúast um orkuskipti, hringrásarhagkerfið eða fullnýtingu auðlinda í takt við áherslur Norðanáttar sem eru matur, orka og vatn.

„Þegar við byrjuðum með verkefnið Hringrás í apríl á síðasta ári sögðu margir að engir frumkvöðlar væru hér fyrir norðan, það væri fullreynt; frumkvöðlar væru reyndar innan sjávarútvegsins en ekki mjög sýnilegir, en aðrir væru ekki á Norðurlandi,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims við Akureyri.net.

 • Eimur, sem stendur ásamt fleirum að hátíðinni, er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Markmið verkefnisins er að bæta nýtingu orkuauðlinda og auka nýsköpun í orkumálum á Norðausturlandi.

Mikill kraftur

„Ári síðar eru við komin með 25 teymi sem eru að vinna verkefni undir þemanu matur, orka, vatn. Frumkvöðlar á Norðurlandi eru sem sagt að gera ótrúlega flotti hluti en vantaði stuðningsnet. Við höfum séð að þar sem frumkvöðlar koma saman og segja frá draumum sínum geta magnaðir hlutir gerst; þá verður til mikill kraftur,“ segir Sesselja.

Eftir að kvisaðist út að fullbókað væri á fjárfestahátíðina segir Sesselja að nokkrir frumkvöðlar annars staðar á landinu hafi hringt og spurt hvort þeir gætu fengið að koma á næstu fjárfestahátíð. „Það er ótrúlega gaman að við séum að búa til þannig umhverfi á Norðurlandi að fólk vilji koma.“

„Stór“ nöfn á hátíðinni

Á annan tug fjárfestingasjóða eiga fulltrúa á hátíðinni á Siglufirði á morgun og nokkrir englafjárfestar, sem svo eru kallaðir, taka einnig þátt. Þar er um að ræða vel efnaða einstaklinga sem eru að leita að tækifærum til fjárfestinga. Nokkur stór nöfn koma norður á hátíðina, eins og Sesselja orðar það. „Þetta er ótrúlega spenanndi og mjög gaman að halda fyrstu fjárfestahátíðina utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir hún.

Sprotafyrirtækin sem kynna verkefni á morgun eru þessi:

 • Hemp Pack – Þróun niðurbrjótanlegs lífplasts úr íslenskum iðnaðarhamp og örverum úr íslenskum jökulám.
 • Mýsköpun – Mývatns Spirulina: úr krafti eldfjallanna í ofurfæðu.
 • Alor – Sjálfbærar og umhverfisvænar álrafhlöður og -orkugeymslur.
 • Icelandic Eider – Hvernig skal umbylta útivistamarkaðnum.
 • Baðlón – Verkefnið gengur út á að byggja glæsilegt baðlón við sjávarmálið á Skagaströnd með einstöku útsýni yfir opið hafið.
 • Green fuel – Grænt vetni og ammoníak: Kolefnisfrítt eldsneyti úr vistvænni orku
 • Grænafl – Rafvæðing strandveiðibáta og tilraunir með frekari orkuskipti í minni fiskiskipum.
 • Ylur – Hátæknigróðurhús með áherslu á hringrásarhagkerfið.
 • Slippurinn – Sjávarlón er lausn sem bestar margbreytilegar aðstæður í þvotta- og blæðingarferli bolfisks í fiskiskipum.
 • Pelliscol – Náttúrulegar húðvörur úr íslensku kollageni.

Þrír ráðherrar eru meðal þeirra sem taka þátt í hátíðinni.

 • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra flytur ávarp og opnar hátíðina.
 • Á ráðstefnu um nýtingu auðlinda til nýsköpunar flytja eftirtaldir erindi:
 • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra
 • Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Sjávarklasans
 • Josh Klein, athafnamaður og frumkvöðull
 • Hólmfríður Sveinsdóttir, frumkvöðull og eigandi Mergur ráðgjöf
 • Á fjárfestakynningu talar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar