Fara í efni
Fréttir

Frostið bítur – 25 gráður á flugvellinum

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyringar hafa ekki farið varhluta af kuldakasti í dag frekar en aðrir landsmenn. Frostþoka lá yfir Pollinum og frost fór mest í 18,4 gráður kl. 17.00 skv. mælitækjum Veðurstofunnar við Krossanesbraut. Á flugvellinum mældist hins vegar mest 24,7 gráða frost kl. 16.00, nokkru síðar 25,2 gráður og aftur kl. 17.16.

Þrátt fyrir kuldann má segja að veður hafi verið fallegt því sólin skein í dag og vart hreyfði vind.

Á morgun er spáð 17 til 18 stigum fram yfir hádegi, þá minnkar frostið hægt og bítandi og fer niður fyrir tveggja stafa tölu um áttaleytið annað kvöld. 

  • Á forsíðu Akureyri.net er tengill á vef Bliku þar sem hægt er að fylgjast með veðurspá.  

Akureyri.net hefur undanfarið fjallað ítarlega um heitt vatn og notkun þess með aðstoð starfsfólks Norðurorku. Að mörgu er að hyggja, ekki síst þegar jafn kalt er í veðri og núna. Í greinunum er margvíslegur fróðleikur. Hér er nýjasta greinin: Vitundarvakning en ekki hræðsluáróður.

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson