Fara í efni
Fréttir

Frístundastyrkur barna 60 þúsund krónur

Öll börn í Akureyrarbæ fædd á árunum 2009-2020 eiga rétt á frístundastyrk. Mynd: akureyri.is

Eins og undanfarin ár veitir Akureyrarbær börnum á aldrinum 6-17 ára frístundastyrk á þessu ári. Árið 2026 nemur hann 60 þúsund krónum fyrir hvert barn og hækkar um 5 þúsund krónur frá árinu 2025.

Frístundastyrkurinn 2026 er fyrir börn fædd 2009 til og með 2020 og gildir frá 1. janúar til 31. desember. Meginmarkmið frístundastyrksins er að öll börn og unglingar geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum og styrkinn má nota til niðurgreiðslu þátttökugjalda hjá íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsfélögum á Akureyri.

Ekki þarf að nota allan styrkinn í einu, eða til sama félags, heldur geta forráðamenn skipt styrkupphæðinni eftir hentugleikum. Þau félög sem taka við frístundastyrknum eru öll með félagakerfi sitt í Abler-kerfinu. Forráðamenn skrá iðkendur inn í kerfið gegnum vefsíðu viðkomandi félags og í skráningarferlinu er hægt að velja um að ráðstafa frístundastyrknum til greiðslu.

Á upplýsingasíðu Akureyrarbæjar um frístundastyrkinn má m.a. finna úthlutunarreglurnar og þar er líka tengill á yfirlitssíðu í Abler um félög og fyrirtæki sem taka við frístundastyrk bæjarins.