Fara í efni
Fréttir

Frístundastrætó fyrir börn í haust

Ungir Þórsarar og KA-menn verða án efa í hópi margra barna á ferðinni með frístundastrætó næsta vetu…
Ungir Þórsarar og KA-menn verða án efa í hópi margra barna á ferðinni með frístundastrætó næsta vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Frístundastrætó á vegum Akureyrarbæjar verður komið á laggirnar í haust. Þá verður boðið upp á akstur fyrir börn í 1. til 4. bekk til og frá íþróttaæfingum og öðru tómstundastarfi kl. 13 til 16 á daginn.

„Frístundaaksturinn er liður í að innleiða stefnu bæjarins um samfellu í skóla- og frístundastarfi sem unnið hefur verið markvisst að undanfarin tvö ár,“ segir á vef Akureyrarbæjar. „Markmiðið er að skólastarf, íþróttir og aðrar tómstundir myndi eina heild hjá börnum í 1. til 4. bekk. Í samvinnu við íþróttafélögin og aðra sem bjóða upp á tómstundir fyrir börn á þessum aldri hefur verið unnið að því að færa æfingatíma þeirra fyrr á daginn þ.e. frá kl 14-16 og hefur sú vinna gengið vel.“

Börn sótt í alla grunnskóla

„Í samræmi við þessa stefnu bæjarins var við mótun á nýju leiðaneti Strætisvagna Akureyrar horft sérstaklega til þess að bæta tengingar við frístundastarf, minnka skutl foreldra á vinnutíma og auka þannig lífsgæði barnafjölskyldna. Þrátt fyrir mikilvæg skref í þá átt með nýju leiðaneti, einkum fyrir börn í eldri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólanemendur, þá hefur samráð við íbúa og íþróttafélög sýnt að nauðsynlegt er að koma betur til móts við yngstu börnin. Því hefur verið ákveðið að innleiða sérstakan frístundaakstur að fyrirmynd nokkurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og liggja fyrir fyrstu tillögur að fyrirkomulagi.

Í meginatriðum virkar frístundastrætó þannig að börn eru sótt í alla grunnskóla og ekið á æfingar og aðrar tómstundir sem hefjast kl. 14 og 15. Einnig verða börnin sótt eftir að æfingum og tómstundum lýkur. Nokkrir bílar verða eknir hring um bæinn en byrja á mismunandi stöðum til að stytta biðtíma barnanna. Starfsmaður verður í hverjum bíl til að tryggja öryggi.“

Fram kemur að frístundastrætó bæjarins muni leysa af hólmi rútuakstur sem íþróttafélögin Þór og KA hafa séð um fyrir yngstu iðkendur sína í fótbolta. Þannig verður fleiri börnum, sem iðka hinar ýmsu íþróttagreinar og tómstundir, gefinn kostur á að nýta sér þjónustuna.

Bæjarráð samþykkti á síðasta fundi beiðni frístundaráðs um 8,5 milljóna króna viðauka svo hægt sé að hefja aksturinn sem tilraunaverkefni veturinn 2021 til 2022. Á vef bæjarins kemur fram að stefnt sé að því að foreldrar/forráðamenn greiði hóflegt gjald fyrir þessa þjónustu og að nánar verði upplýst um fyrirkomulagið þegar nær dregur.