Fara í efni
Fréttir

Frímúrararegla karla og kvenna í 100 ár á Íslandi

Frímúrararegla karla og kvenna í 100 ár á Íslandi

Á morgun, föstudag, verður haldið upp á 100 ára starfsafmæli Le droit humain, hinnar Alþjóðlegu frímúrarareglu karla og kvenna, hér á landi. Þann dag árið 1921 var stúkan Ýmir nr. 724 stofnuð í Reykjavík. Nú eru starfandi 10 stúkur á þremur stöðum á Íslandi, í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum.

Reglan á Íslandi er hluti af hinni Alþjóðlegu frímúrarareglu karla og kvenna, Le droit humain , sem starfar um víða veröld. Hún tilheyrir frjálslyndum armi frímúrarastarfs í heiminum, að því er segir í tilkynningu, og var stofnuð af Georges Martin og Marie Deraisme í París 1893. Höfuðstöðvar reglunnar eru í París en meðlimir teljast nú liðlega 32.000 í 60 löndum.

„Reglan starfar eftir hinu Forna og viðurkennda skoska siðakerfi og markmið starfsins er að vinna að mannrækt til heilla mannkyni. Innan reglunnar starfa karlar og konur hlið við hlið, óháð kyni, þjóðerni, uppruna, litarhætti og trúarskoðun,“ segir í tilkynningu frá reglunni.

„Af þessu tilefni býður Alþjóðleg frímúrararegla karla og kvenna, Le droit humain, á Íslandi, almenningi í opið hús í húsakynnum sínum að Kirkjustétt 2-6 í Reykjavík, Óseyri 2 á Akureyri og Tjarnarsási 6 á Egilsstöðum föstudaginn 12. mars milli kl. 17.00 og 19.00. Fylgt verður sóttvarnareglum og fólk er hvatt til að nota sóttvarnagrímu og gæta að fjarlægðartakmörkunum.“