Fara í efni
Fréttir

Nýjungar og nýir eigendur - opið hús í dag

Nýir eigendur Polynorth, Hjörleifur Árnason, til vinstri, og Hrafn Stefánsson.
Nýir eigendur Polynorth, Hjörleifur Árnason, til vinstri, og Hrafn Stefánsson.

Nýir eigendur taka í dag við rekstri Polynorth á Akureyri. Fyrirtækið hefur m.a. framleitt einangrunarplast til byggingaframkvæmda og stefnt er að ýmsum nýjungum. „Við stefnum að því að fjölga vörulínum og höfum til dæmis keypt nýja vél frá Austurríki til að steypa kubba til húsbygginga,“ segir Hjörleifur Árnason við Akureyri.net en þeir Hrafn Stefánsson hafa keypt fyrirtækið.

„Tvö fyrirtæki í Reykjavík framleiddu slíkar einingar en hættu því og snéru sér að öðru. Allir sem við tölum við og hafa byggt svona frauðkubbahús eru gríðarlega ánægðir; þessar einingar þykja mjög þægilegar og einfaldar í uppsetningu og eru líka með afburða einangrunargildi og hljóðvist. Við höldum því að markaður sé fyrir frauðkubbahús á Íslandi,“ segir Hjörleifur. „Það er hægt að fá frauðkubba í dag en þeir eru innfluttir og rándýrir. Það er líka hægt að fá frauðplast úr Reykjavík en það er 98% loft og hver maður hlýtur að sjá það er tóm vitleysa að flytja loft á milli landshluta! Þess vegna finnst okkur mjög mikilvægt að starfsemi eins og þessi sé fyrir hendi á Akureyri.“

Hrafn er vélfræðingur að mennt og hefur reynslu af plastframleiðslu bæði hér heima og erlendis. Hjörleifur er viðskiptafræðingur og matreiðslumaður og hefur verið í fyrirtækjarekstri undanfarin ár, meðal annars í veitingageiranum.

Hjörleifur segir að þeim sé mikið í mun að halda áfram framleiðslu einangrunarplasts norðan heiða, svo hægt sé að þjóna markaðnum eins og best verði á kosið.

Opið hús verður hjá Polynorth frá hádegi og fram eftir degi. Heitt á könnunni og allir velkomnir til skrafs og ráðagerða. Fyrirtækið er til húsa á Óseyri 4.