Fara í efni
Fréttir

„Framganga gesta frábær – fólk er í góðum fíling“

Hreiðar Hreiðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögregluembætti Norðurlands eystra. Mynd: Rakel Hiriksdóttir

„Tónleikagestum líður mjög vel hérna núna og mér líður vel líka, það gengur ótrúlega vel hingað til,“ segir Hreiðar Hreiðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögregluembætti Norðurlands eystra, þegar farið er að síga á seinni hluta tónleikaveislunnar Vor í Vaglaskógi. Hann gaf sér tíma til þess að spjalla við blaðamann Akureyri.net fyrir hönd viðbragðsstjórnar.

Framganga gestanna er frábær, fólkið hérna er í góðum fíling

„Framgangur allra lögreglumanna, björgunarsveitanna, gæslufólksins og allra annarra viðbragðsaðila er búinn að vera frábær,“ segir Hreiðar. „Niðurstaðan er eins og ber vitni, allt gengur vel og það kemur okkur skemmtilega á óvart eiginlega. Við erum 22 frá lögreglunni, í kring um 40-50 björgunarsveitarmenn, slökkviliðsmenn og sjúkraflutningarlið eru u.þ.b. 10 og gæslufólk eru 30 manns. Við erum sennilega um það bil 100 manns.“

„Aðgerðarstjórnin sjálf er 8 manna teymi sem vinnur saman og hefur svo tengsl við sínar grúppur,“ segir Hreiðar. „Við erum öll með okkar verkefni og eftirlit, en hérna í tveimur bílum erum við með stjórnstöðina og aðgerðarstjórnin er regnhlífin yfir starfsemina. Nú er klukkan um 20.00 og það hafa ekki komið upp nein lögreglumál, bara svona úrlausnarmál, aðallega tengd umferð og skipulagi á henni.“

 

Hugmyndin að tónleikunum kemur frá hljómsveitinni Kaleo, en eitt af fyrstu lögunum sem sló í gegn hjá þeim er ábreiða af laginu 'Vor í Vaglaskógi', og það hefur lengi verið draumur hjá þeim að halda tónleika í skóginum. Jökull Júlíusson, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar var á þessum tímapunkti að heilsa upp á aðdáendur, en hljómsveitin mun enda tónleikana seinna í kvöld. Mynd: RH

Óvenju knappur fyrirvari

„Við erum búin að vinna að þessu undanfarið, en helsta áskorunin hefur verið að fyrirvarinn var ekki mjög mikill,“ segir Hreiðar. Við fengum viðburðinn á borð hjá okkur fyrir 5 vikum, en almennt er talað um að lágmarks fyrirvari séu 3 mánuðir, það er vinnureglan. Við tókum nú samt vel í þetta og við höfum gert allt sem við getum. Við erum mörg sem höfum unnið mikla undirbúningsvinnu.

„Það sem er helst á bak við tjöldin eru öll leyfismálin, undirbúa að farið sé að reglum og að öryggisatriðin séu í föstum skorðum,“ segir Hreiðar. „Þegar það er í lagi, þá er hægt að skipuleggja viðburðinn. Áskoranir hérna, eru gríðarlegur fólksfjöldi, óvenjulegur staður, erfiðar samgöngur. Vegirnir hérna bera ekki mikla umferð. Við auglýstum lokanir á veginum frá klukkan 14, en við þurftum svo ekki að framfylgja því. Við héldum okkur við að hafa einstefnu norður Vaglaskóg að austanverðu, annars eru engar umferðartakmarkanir.“ 

 

Gestir tónleikanna eru um 7000 talsins, en á svæðinu er fólk á öllum aldri, börn og dýr voru ekki skilin eftir heima. Góð og afslöppuð stemning fyllir skóginn. Myndir: RH

Tónlistin er aukaatriði fyrir lögreglumanninn

„Framganga gestanna er frábær, fólkið hérna er í góðum fíling,“ segir Hreiðar. „Veðrið er líka að leika við okkur og aðstæður eru mjög góðar. Allt sem við höfðum í bakhöfðinu, að gæti farið úrskeiðis, hefur ekki raungerst.“ 

„Mér er eiginlega alveg sama um tónlistina,“ segir Hreiðar brosandi, þegar blaðamaður spyr hvort hann geti kannski bara notið tónlistarinnar fyrst það gengur svona vel og allt með kyrrum kjörum í viðbragðsstjórn. „Ég er bara svo ánægður með hvað það gengur vel hingað til, og við erum áfram á vaktinni.“

 

Engan ætti að skorta öryggistilfinningu, nóg er af viðbragðsaðilum á svæðinu. Myndir: RH