Fara í efni
Fréttir

Fræddu eldri borgara á Akureyri um netöryggi

Frá fundi Landsbankans og Félags eldri borgara á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Um 50 manns sóttu fræðslufund um netöryggi sem Landsbankinn stóð fyrir í samvinnu við Félag eldri borgara á Akureyri í byrjun vikunnar.

Á fundinum, sem var haldinn í félagsmiðstöðinni Sölku, fjallaði Brynja María Ólafsdóttir, sérfræðingur í regluvörslu hjá bankanum, um helstu aðferðir netsvikara og hvernig hægt er að verjast þeim.

Komið hefur fram að miðað við þau mál sem hafa borist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2017 eru 67 ára og eldri meira en helmingur þeirra sem urðu fyrir tjóni af völdum netglæpa. Þörfin fyrir fræðslu og upplýsingar fyrir þennan hóp er því mikil, að mati Landsbankans. Bankinn hélt í fyrra tvo fræðslufundi í samvinnu við Félag eldri borgara í Reykjavík og voru þeir sömuleiðis mjög vel sóttir, að sögn talsmann bankans.

Skipulagðir glæpahópar

Brynja fjallaði m.a. um að úti í heimi eru skipulagðir glæpahópar sem hafa það eina markmið að svíkja fé út úr fólki. Slíkir hópar eru sérfræðingar í að nýta sér góðmennsku og traust fólks til að sannfæra það um að þeim bjóðist frábær fjárfestingartækifæri, t.d. í rafmyntum eða hlutabréfum. Það er einmitt í svokölluðum fjárfestingasvikum þar sem mesta tjónið verður og eru dæmi um að eldri borgarar hafi tapað tugum milljóna króna í svikum af því tagi hér á landi, skv. upplýsingum bankans.

Undanfarið hefur borið mikið á svikum sem fara fram í gegnum samfélagsmiðla og skilaboðaforrit  – sjá til dæmis hér. Í slíkum svikum taka svikarar yfir aðgang að samfélagsmiðlum og senda síðan skilaboð á vini á vinalistanum. Í skilaboðunum mæla svikararnir t.d. með netleik og biðja um símanúmer vinanna til að hægt sé að skrá þá í leikinn. Í kjölfarið biðja þeir um að fá senda kóða sem koma í SMS-i. Ástæðan fyrir þessum beiðnum er sú að svikararnir eru að nota símanúmerið til að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Ef þeir fá líka kóðann sem kemur í SMS-inu geta þeir klárað málið og komist inn með rafrænum skilríkjum, t.d. í netbanka.

„Við höfum ítrekað varað við svikum af þessu tagi og á vef bankans er mikið af fræðsluefni um netsvik og hvernig hægt er að verjast þeim,“ segir starfsmaður bankans: Fræðsluefni um netöryggi á vef Landsbankans