Fara í efni
Fréttir

Frábær leikur Þórs og Víkings – MYNDIR

Helgi Guðjónsson brýtur ísinn þegar aðeins rúmar þrjár mínútur voru liðnar af leiknum í kvöld. Daniel Djuric sendi boltann fyrir markið frá vinstri, Helgi tók boltann viðstöðulaust á lofti og þrumaði honum í netið. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar eru úr leik í bikarkeppninni í knattspyrnu karla, Mjólkurbikarkeppninni, þetta tímabilið en liðið mætti ríkjandi bikarmeisturum, Víkingi frá Reykjavík í átta liða úrslitum á Þórsvelli í kvöld. Þrátt fyrir góða frammistöðu liðsins tapaðist leikurinn 1:2. Ingimar Arnar Kristjánsson gerði mark Þórs í leiknum.

Þrátt fyrir sigur Víkinga var spilamennska Þórs í leiknum til fyrirmyndar. Liðið var með skýrt leikplan sem gekk að mestu leyti upp en klaufagangur í vörn kostaði liðið á móti jafn sterkum andstæðingum og lið Víkings er. 

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum.

Umfjöllun Akureyri.net fyrr í kvöld: Góð frammistaða en Þórsarar úr leik

_ _ _

ARNAR GUNNLAUGSSON MÆTTUR
Arnar Gunnlaugsson, sem hefur verið mikið í fréttum undanfarna daga vegna ummæla sinna eftir 2:2 jafntefli Víkings og Breiðabliks á sunnudaginn, var mættur á Þórsvöll. Hann var að eigin sögn spenntur að mæta til Akureyrar en afi Arnars var einn af stofnmeðlimum Þórs árið 1915. Þess má geta að félagið var stofnað 6. júní svo á morgun verður haldið upp á 108 ára afmælið.

_ _ _

VEL MÆTT Á LEIKINN OG STEMNING Í STÚKUNNI
Vel var mætt á völlinn í dag enda ekki á hverjum degi sem ríkjandi bikarmeistarar mæta á Þórsvöll. Mjölnismenn sem hafa sett skemmtilegan svip á Þórsleiki í sumar voru að sjálfsögðu mættir og hvöttu sína menn áfram. 

_ _ _

0:1 – HELGI GUÐJÓNSSON KEMUR VÍKINGUM YFIR
Leikurinn var aðeins þriggja mínútna gamall þegar fyrsta markið leit dagsins ljós. Ion Perello missti boltann þá klaufalega fyrir framan teig Þórsara og Víkingar náðu að spila sig inn í teiginn. Daniel Djuric fékk boltann, lyfti honum á fjærstöngina yfir Ómar í marki Þórs. Þar var Helgi Guðjónsson einn og óvaldaður og klippti boltann í netið. Sannarlega draumabyrjun fyrir ríkjandi bikarmeistarana.

_ _ _

1:1 – INGIMAR ARNAR JAFNAR
Þórsarar létu mark Víkinga ekki slá sig út af laginu, unnu sig vel inn í leikinn og á 16. mínútu jöfnuðu þeir metin. Víkingar áttu þá innkast á eigin vallarhelmingi Ingimar Arnar Kristjánsson gerði frábærlega og náði til boltans. Eftir klafs í teignum fékk Ingimar boltann aftur og átti utanfótar skot í stöngina. Hann var einnig fljótastur að átta sig eftir skotið, náði frákastinu sjálfur og skoraði af stuttu færi. Ingimar sem er aðeins 18 ára gamall hefur verið að spila virkilega vel í sumar og þetta var enn einn góði leikur hans í framlínu Þórsrara.

_ _ _

DAUÐFÆRI DANIJELS DJURIC
Á 20. mínútu leiksins fékk Danijel Djuric dauðafæri til að koma Víkingum yfir á ný. Löng sending fram völlinn skoppaði rétt utan vítateigs Þórsara. Ómar Castaldo var kominn langt út úr markinu til að hreinsa boltann. Það fór ekki betur en svo að Elmar Þór Jónsson ætlaði að gera það sama og þeir rákust saman. Við það fékk Danijel boltann utan teigs og enginn í marki. Hann reyndi bakfallsspyrnu en skotið fór rétt fram hjá auðu markinu. Þarna voru Þórsarar heppnir að lenda ekki undir. 

_ _ _

EKROTH HEPPINN AÐ FÁ EKKI ANNAÐ GULT SPJALD
Oliver Ekroth miðvörður Víkinga var mikið í baráttunni undir lok fyrri hálfleiks. Hann fékk réttilega gult spjald á 40. mínútu eftir viðskipti við Ingimar á miðjum vellinum. Oliver gerði þá sitt besta til að toga Ingimar úr treyjunni. Aðeins tveimur mínútum seinna var Oliver í baráttu út við endalínu við Aron Inga Magnússon. Oliver ýtti hressilega við Aroni þegar boltinn var að renna út af. Aron sem var ekki í miklu jafnvægi datt við það. Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins dæmdi ekkert en stuðningsmenn Þórs vildu fá gult spjald á loft og þar með rautt. 

_ _ _

1:2 – MARTRAÐABYRJUN ÞÓRSARA Á SEINNI HÁLFLEIK
Staðan var 1:1 þegar Helgi Mikael flautaði til hálfleiks. Eftir að hafa komist yfir snemma sköpuðu Víkingar sér lítið og virtust á köflum vera pirraðir á baráttuglöðum Þórsurum. Það var því skelfileg byrjun á seinni hálfleik fyrir Þórsrara þegar Víkingar komust yfir eftir aðeins hálfa mínútu leik. Eftir misskilning milli Bjarna og Elmars á vinstri kantinum geystust Víkingar í skyndisókn. Helgi Guðjónsson keyrði inn í teig og lagði boltann út. Þar var Bjarni Guðjón mættur en tækling hans misheppnaðist algjörlega. Boltinn barst þá á Ara Sigurpálsson sem gat ekki annað en skorað. Vægast sagt heppnis stimpill yfir markinu en Víkingum var sama um það og fögnuðu vel.

_ _ _

INGIMAR ARNAR Í FÍNU FÆRI
Ingimar Arnar fékk ágætt færi til að jafna á 56. mínútu. Eftir skyndisókn Þórsara fékk Vilhelm Biering Ottóson boltann á vinstri kantinum og átti fasta sendingu fyrir markið. Þar kom Ingimar á ferðinni að fjærstönginni, náði til boltans en náði ekki að stýra knettinum á markið. Sendingin var aðeins of föst svo Ingimar þurfti að teygja sig í hann sem varð til þess að boltinn fór yfir markið. 

_ _ _

KRISTÓFER FÆR GOTT FÆRI FYRIR ÞÓR UNDIR LOKIN
Eftir mark Víkinga var lítið um opin færi í leiknum. Gestirnir voru meira með boltann og komust í álitlegar stöður en Ómar Castaldo í markinu þurfti ekki að verja mörg skot í seinni hálfleiknum. Svipað var upp á teningnum hjá Þór, lítið var um opin færi. Besta færi heimamanna í seinni hálfleik kom á 85. mínútu. Ion Perello átti þá góða sendingu yfir vörn Víkinga þar sem Kristófer Kristjánsson náði til hans. Hann reyndi að lyfta boltanum yfir Þórð Ingason í markinu en boltinn fór ekki nógu hátt og Þórður handsamaði knöttinn. Eftir þetta fjaraði leikurinn út og Víkingar sigldu sigrinum heim.