Fórnarlamba bílslysa minnst við athöfn í dag
Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa er í dag, sunnudag 16. nóvember. Af því tilefni verða minningarathafnir á nokkrum stöðum hérlendis, m.a. í húsakynnum Súlna, björgunarsveitarinnar á Akureyri, að Hjalteyrargötu 12. Athöfnin hefst kl. 14 og þangað eru allir velkomnir.
Auk þess að vera minningardagur hefur hér á landi skapast sú venja að tileinka daginn umfjöllun og forvörnum tiltekins áhættuþáttar sem valdið hefur banaslysum. Nú í ár er það notkun eins mikilvægasta öryggisbúnaðar bifreiða – öryggisbelta. „Öryggisbelti minnka líkur á dauðsfalli í fólksbílum um allt að 45%. Koma hefði mátt í veg fyrir fjölda banaslysa og alvarlegra slysa ef öryggisbelti hefðu verið notuð,“ segir á vef Samgöngustofu.
Dagskráin í dag
- Svava Hrund Friðriksdóttir syngur When I Think of Angels við undirleik Heimis Bjarna Ingimarssonar.
Einkennislag dagsins er lag KK, When I Think of Angels, í flutningi hans og Ellenar sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. - Fulltrúi frá bæjarstjórn Akureyrar flytur ávarp.
- Þórdís Gísladóttir flytur reynslusögu sína.
- Séra Sindri Geir Óskarsson flytur hugvekju og stýrir einnar mínútu þögn.
- Viðbragðsaðilar stilla sér upp fyrir myndatöku.
- Boðið verður upp á kaffi, kakó og með því.
Dregur úr bílbeltanotkun
Í viðhorfskönnunum sem Samgöngustofa fékk Gallup til að gera fyrir ári síðan kemur fram að bílbeltanotkun hefur dregist talsvert saman meðal ungs fólks, einkum ungra karlmanna. Fjöldi ungs fólks notar því ekki öryggisbelti að staðaldri. „Við þessu var strax brugðist með herferð á samfélagsmiðlum en betur má ef duga skal. Á hverju ári verða mörg alvarleg slys, þ.m.t. banaslys, sem rekja má til þess að bílbelti eru ekki notuð. Í nýlegri samantekt sem byggir á slysatölum Samgöngustofu kemur fram að yfir helmingur þeirra sem lést innanbæjar í bifreið á síðustu 20 árum var beltislaus,“ segir á vef Samgöngustofu.
„Sá sem notar ekki bílbelti er í um 13 sinnum meiri hættu á að verða fórnarlamb banaslyss en sá sem notar beltið. Þetta sést á samanburði á fjölda þeirra sem nota belti almennt í umferðinni og tíðni beltanotkunar hjá þeim sem látast í umferðarslysum hins vegar.“
1.632 hafa látist í umferðinni á Íslandi
Frá því að fyrsta banaslysið var skráð hér á landi 25. ágúst 1915 hafa 1.632 látist í umferðinni á Íslandi (til og með 11. nóv. 2025). Enn fleiri slasast alvarlega, takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum. Þetta kemur fram á vef Samgöngustofu.
Það sem af er þessu ári hafa átta látið lífið í umferðinni hér á landi. Hér að neðan er yfirlit um fjölda látinna í umferðinni í ár og á undanförnum árum
- 2025 – 8 látnir (það sem af er ári)
- 2024 – 13 látnir
- 2023 – 8 látnir
- 2022 – 9 látnir
- 2021 – 9 látnir
- 2020 – 7 látnir
- 2019 – 6 látnir
- 2020-2024 – 9 látnir að meðaltali á ári
- 2010-2019 – 12,2 látnir að meðaltali á ári
- 2000-2009 – 19 látnir að meðaltali á ári
Að baki minningardeginum standa innviðaráðuneytið, Samgöngustofa, Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan, Vegagerðin og ÖBÍ réttindasamtök.