Fara í efni
Fréttir

Formlega gengið frá kaupunum á Sólgarði

Kristján Vilhelmsson, Kolbrún Ingólfsdóttir og Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar við undirritun samningsins í dag. Mynd af vef sveitarfélagsins.

Í dag var formlega gengið frá kaupum hjónanna Kristjáns Vilhelmssonar og Kolbrúnar Ingólfsdóttur á félagsheimilinu Sólgarði af Eyjafjarðarsveit með undirskrift samnings. Það er Fjárfestingafélagið Fjörður, sem er í eigu þeirra hjóna, sem kaupir fasteignina af sveitarfélaginu. Kaupverðið er 75 milljónir króna.

Frétt Akureyri.net síðastliðinn föstudag um kaupin vakti gríðarlega athygli og ekki síst sú staðreynd að Smámunasafn Sverris Hermannssonar fengi inni í húsinu endurgjaldslaust næstu 10 ár.

  • Smellið hér til að sjá fréttina

Á vef Eyjafjarðarsveitar segir í dag að fyrir skömmu hafi Kristján viðrað þá hugmynd við sveitarstjóra, Finn Yngva Kristinsson, og oddvita listanna í sveitarstjórn, þau Hermann Inga Gunnarsson og Ástu Arnbjörgu Pétursdóttur, að festa kaup á Sólgarði með það fyrir augum að Smámunasafn Sverris Hermannssonar hefði samastað í húsinu ásamt því að tryggja öðrum aðilum áframhaldandi afnot af því. „Vel var tekið í hugmyndina þar sem sveitarstjórn hafði lagt nokkra áherslu á að safnið gæti verið áfram í Sólgarði að loknum eigendaskiptum og gefið sér góðan tíma við meðferð sölunnar.“

Í kjölfarið barst sveitarstjórn tilboð í eignina með samkomulagi um áframhaldandi afnot sveitarfélagsins af henni undir safnið sem sveitarstjórn gekkst að með eftirfarandi orðum:

„Í ljósi mikils velvilja kaupanda af Sólgarði í garð Smámunasafns Sverris Hermannssonar og samfélagsins í Eyjafjarðarsveit samþykkir sveitarstjórn samhljóða að stuðla áfram að opnun sýningar Smámunasafns Sverris Hermanssonar áhugasömum til fróðleiks og gamans frá 1.júní til 10 september á árinu 2023. Þá felur sveitarstjórn sveitarstjóra jafnframt, í samstarfi við velferðar- og menningarnefnd, að leita skynsamlegra leiða til að halda sýningunni opinni á sambærilegan máta á ári hverju auk þess að tryggja aðgengi fræðimanna og skólahópa að sýningunni og safninu eftir því sem við á hverju sinni allt árið um kring.“

Meðfylgjandi mynd birtist á vef Eyjafjarðarsveitar í dag með frétt um undirskrift samningsins. Þar segir:

„Sveitarstjórn vill koma sérstökum þökkum til þeirra Kristjáns V. Vilhelmssonar og Kolbrúnar Ingólfsdóttir vegna þeirrar miklu velvildar sem þau sýna í garð samfélagsins með fyrirliggjandi samkomulagi um afnot af húsinu undir Smámunasafn Sverris Hermannssonar og þeirri sýn sem þau hafa um áframhaldandi nýtingu hússins fyrir samfélagið á komandi árum“.